Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 19:15:26 (6140)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mikið en ástæða þess að ég fór hér upp er sú að ég ætlaði að eiga orðastað við hæstv. forsrh. vegna síendurtekinna ummæla hans um þátt formanns Framsfl. í atburðarásinni í gær. Nú vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hæstv. forsrh. sé ekki í húsinu. --- Er hæstv. forsrh. farinn?
    Virðulegur forseti. Ég verð að segja að mér finnst þetta ganga furðu næst að meðan við þingmenn stjórnarandstöðunnar lýsum yfir vilja okkar hér . . .  ( Forseti: Því miður þá varð hæstv. forsrh. að yfirgefa fundinn þar sem hann þurfti að sinna skyldum sínum gagnvart þeim gesti, sem er hér í dag, eins og hv. þingmenn vita, forseta Litáens, og gat því miður ekki verið hér lengur. Væntir forseti þess að hv. þm. taki tillit til þess.) og virðulegur forseti væntir þess væntanlega að stjórnarandstæðingar sitji áfram og hjálpi til við að koma þessu máli til nefndar þó hæstv. forsrh. geti ekki beðið í 5--10 mínútur eftir því.
    En ég vil þá nefna það hér að síendurtekin ummæli hæstv. forsrh. um þátt Steingríms Hermannssonar að málatilbúningi í gær eru vægast sagt furðuleg. Það lá alveg ljóst fyrir í gær þegar boðað var til ríkisstjórnarfundar og þingfundi frestað að eitthvað mikið lá í loftinu og fréttamenn og aðrir voru komnir á eftir því um leið. Að ætla síðan að skella þessu klúðri hæstv. ríkisstjórnar yfir á formann Framsfl. er ekki stórmannlegur málatilbúnaður.
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði líka að ítreka það við hæstv. forsrh., sem ég sagði fyrr í dag, að ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar, sem er mjög tamt að bera okkur saman við þjóðþing og ríkisstjórnir annars staðar, hefðu átt að velta því fyrir sér hvernig hlutir sem þessir hefðu verið unnir þar, væntanlega í nánu samráði við viðkomandi þingmenn og stjórnarandstöðu. Ekkert af því var gert hér. Það er ekki fyrr en sá sem hér stendur fer fram á það undir kvöld í gærkvöldi að málið verði tekið fyrir og kynnt í efh.- og viðskn. að einhver hreyfing kemur á það mál. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. viðskrh. hvort það hafi ekki hvarflað að ráðherranum eða ríkisstjórn í gær að það hefðu verið eðlileg vinnubrögð og hvort það hefðu ekki verið eðlilegri vinnubrögð að vinna að þessu á slíkan hátt. Ef hæstv. ríkisstjórn meinti eitthvað með því að þetta hefði átt að gerast í samvinnu og á þann hátt að það skaðaði bankakerfið sem minnst þá hefði verið hægur vandinn að geyma málið og vinna þetta yfir helgi. En væntanlega hefur hæstv. ríkisstjórn ekki haft hugmyndaflug til slíkra hluta.
    Virðulegur forseti. Ég vil að lokum ítreka það sem ég sagði í dag að við eigum að einskorða málið og umfjöllun þess við Landsbankann og þann vanda sem menn telja að þar þurfi að leysa. Þess vegna ítreka ég það sem ég sagði fyrr í ræðu minni að því væri eðlilegt að ekki yrðu veittar aðrar heimildir til Tryggingarsjóðs viðskiptabanka en það sem þarf vegna Íslands . . .   fyrirgefið, manni er orðið þetta nafn svo tamt eftir allar umræður undanfarið, sérstaklega hjá hæstv. fjmrh., heldur en það sem er nauðsynlegt vegna Landsbankans. Um það er ég viss um að gæti náðst samstaða. Ég ítreka einnig að 6. gr. er algjörlega óþörf og úr takt við allar stjórnunarvenjur, hvort sem um er að ræða ríkisstofnanir eða aðrar og ég mundi leggja einnig áherslu á að sú grein yrði á brott.