Heimili fyrir börn og ungmenni

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 10:31:21 (6142)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Eins og flestir vita væntanlega, er vistun barna í sveit um lengri eða skemmri tíma orðin nokkuð algengt úrræði, bæði fyrir barnaverndaryfirvöld og eins fyrir almenna foreldra. Þarna er fyrst og fremst um að ræða sumardvöl í sveit sem er þá almennt notuð bæði af foreldrum og barnaverndaryfirvöldum til þess að koma borgarbörnum, ef svo má segja, af götunni þegar skóla lýkur og fá úrræði bjóðast hér í bænum. Þarna getur bæði sem sagt verið um að ræða að foreldrar kjósi að senda börn sín í sumardvöl um lengri eða skemmri tíma og eins er þetta notað sem barnaverndarúrræði, stundum sem fyrirbyggjandi barnaverndarúrræði, stundum líka vegna þess að börn sem eiga í vandræðum eiga hreinlega betra athvarf í sveit heldur en annars staðar. Ef um er að ræða dvöl í meira en sex mánuði, þá er hún orðin nokkurs konar fóstur og þá á að gera samkvæmt gildandi barnaverndarlögum fóstursamning eins og segir í 31. gr. þeirra laga. En þetta á ekki við ef um sumardvöl er að ræða, þá er ekki gerður neinn sérstakur fóstursamningur. Þess má geta að bara frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar fóru á síðasta sumri 176 börn til sumardvalar í sveit. Þetta er ekki svo lítill fjöldi og við skulum gera okkur grein fyrir því að sveitarfélögin hér í kring, Kópavogur, Hafnarfjörður og fleiri þéttbýlissveitarfélög, nota þetta úrræði líka.
    Í sveitum eru starfandi Landssamtök vistforeldra í sveit sem starfa í tengslum við Stéttarsamband bænda og er afskaplega mikilvægur félagsskapur sem leggur metnað sinn í að búa sem best að þessum börnum og lítur á umönnun dvalarbarna sem sérstakt starf, ekki bara sem aukagetu.
    Ég veit að mörgum sem starfa að þessum málum, þ.e. þessum vistforeldrum, finnst að það gæti ákveðinna fordóma í þeirra garð hjá mörgu borgarfólki, að það sé svona hálft í hvorku litið á þetta sem eitthvert gustukavert bændakvenna, sem séu að reyna að koma einhverjum umframkvóta í mjólk eða kjöti í lóg og þær noti þetta sem einhvers konar gróðaveg. Það er hins vegar mjög rangt að líta þannig á málin. Það er auðvitað fyllilega eðlilegt að bændakonur vilji fá laun fyrir sína vinnu og greiddan útlagðan kostnað vegna annarra rétt eins og annað fólk. Og þær eiga auðvitað ekki að þurfa að verja það þó að þær verðleggi sína vinnu.
    Ég veit vegna starfa minna í félagsmálaráði Reykjavíkurborgar að samskipti hafa oft verið mjög stirð milli þessa félagsskapar og barnaverndaryfirvalda og ég held að það gæti breyst ef fastara form væri á þessum samskiptum. Þess vegna vil ég nú spyrja hæstv. félmrh. hvað líði útgáfu reglna og leiðbeininga um heimili eins og þessi og með hvaða hætti félmrh. hyggist tryggja gagnkvæm réttindi og skyldur í samskiptum barnaverndaryfirvalda og þeirra heimila sem rekin eru af öðrum aðilum, svo sem vistforeldrum í sveit.