Heimili fyrir börn og ungmenni

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 10:38:32 (6144)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka ráðherra fyrir skýr svör við fyrri lið þessarar fsp. Þar kom mjög skýrt fram að í undirbúningi eru reglugerðir varðandi ýmis þessara heimila eða rekstrarsamningar eins og í tilvikinu með Barnaheill, Árbót og Torfastaði. Ég tel að í einstöku tilvikum eins og þar voru talin upp geti rekstrarsamningur komið í staðinn fyrir reglugerð.
    Ég get hins vegar ekki sætt mig við það svar við 2. lið þessrar fsp. að hún sé byggð á misskilningi og þetta falli ekki undir 51. gr. laganna heldur falli þetta undir 31. gr. sem kveður á um fóstursamninga eða fóstur, vegna þess að ég hef litið svo á að VI. kafli laganna um ráðstöfun barna í fóstur eigi fyrst og fremst við þegar um lengri tíma er að ræða. Ég veit að barnaverndaryfirvöld í Reykjavíkurborg túlka það sem svo að það verði að vera um 6 mánaða vistun eða lengri að ræða.
    Nú vitum við að sumardvöl í sveit er notuð mjög mikið fyrir börn til skemmri tíma og þá erum við að tala um minna en 6 mánuði, jafnvel bara þrjá mánuði. Það skiptir auðvitað máli hvernig að þessum börnum er búið vegna þess að þetta er ekki svo lítill fjöldi eins og ég nefndi hér áðan því að bara á vegum barnaverndaryfirvalda í Reykjavík fara 176 börn til sumardvalar í sveit fyrir utan börn af öðrum þéttbýlisstöðum og fyrir utan börn sem foreldrar hafa milligöngu um að senda sjálfir. Stundum er engin ástæða til þess að skipta sér af því eða gera neinar kröfur um reglur þegar foreldrar koma börnum sínum sjálfir í sumardvöl, enda er það oft hjá ættingjum, vinum eða kunningjum. En ef vistforeldrar í sveit eru farnir að auglýsa sína starfsemi, þá er auðvitað eðlilegt að gera kröfu um að þeir uppfylli ákveðin skilyrði og ákveðnar reglur. Ég vil minna á í þessu sambandi að

ég veit ekki betur en það hafi verið settar reglur um dagmæður sem er kannski svipaðs eðlis að mörgu leyti. Þess vegna finnst mér að þetta svar ráðherra byggi að vissu leyti á misskilningi.