Heimili fyrir börn og ungmenni

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 10:40:52 (6145)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram vegna síðustu orða hv. þm. að það er fullur vilji fyrir því í félmrn. að taka á þessu máli. Ég get tekið undir það með hv. þm. að það er mikilvægt að koma skipulagi og festu á þessi mál. Þetta mál varðandi vistforeldra barna í sveitum var skoðað sérstaklega þegar málið var til meðferðar í þinginu og þetta hefur verið skoðað í ráðuneytinu og er verið að skoða í þeirri nefnd sem á að fjalla um þessi mál. Ef niðurstaðan verður sú að ekki er hægt að taka á þessum málum og koma skipulagi á þau á grundvelli þessara laga, þá þarf auðvitað úr að bæta. En ég vil ítreka að það er fullur vilji til að taka á þessu máli í ráðuneytinu því ég er sammála ræðumanni um að þetta er mjög brýnt úrræði að hafa til staðar sem er vistforeldrar fyrir börn í sveitum.