Leiðbeiningar og ráðgjöf við barnaverndarnefndir

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 10:48:17 (6148)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir skýr og greinargóð svör. Því miður get ég ekki fagnað innihaldi svarsins á sama hátt og umbúnaði. Ég tel að það sé rétt að hafa það í huga að þegar er byrjað að starfa eftir þessum lögum og ég held að það sé óhjákvæmilegt að gera betur en bara að kynna þessa lagasetningu á námskeiðum um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem hér er bæði um viðamikinn, viðkvæman og erfiðan málaflokk að ræða. Það kom að vísu fram í svari hæstv. ráðherra að það stæði til að gera betur, en ég heyrði ekki tímasetningu á því og mér er kunnugt um það að mörgum er starfa að barnaverndarmálum þykir mjög brýnt að úr þessu verði bætt og það hið snarasta og það hefði í raun þurft að gerast áður en lögin tóku gildi. Það held ég að engum geti blandast hugur um.
    Eftir því sem ég kemst næst voru þessi lög kynnt á einu námskeiði í Reykjavík í haust en opinberir aðilar munu ekki hafa staðið að því eftir því sem ég best veit. Því hlýt ég að bæta við spurninguna: Hvenær stendur til, ef það er rétt að það standi til, að bæta úr og hafa betri kynningu á þessu? Ég held að það sé mjög aðkallandi.
    Að lokum vil ég geta þess að ég tek heils hugar undir að það er þörf á því að

stækka og sameina barnaverndarumdæmi. En til þess að svo verði þarf einnig leiðbeiningar og ráðgjöf.