Leiðbeiningar og ráðgjöf við barnaverndarnefndir

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 10:50:17 (6149)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé ástæða til þess að ítreka að það eru ekki nema liðlega tveir mánuðir síðan félmrn. tók við þessum málaflokki og ég tel að það sé að fullu verið að vinna að því að framkvæma þessi lög eins og best verður á kosið. Það að þetta sé kynnt á fundum um leið og lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga tel ég að sé hagkvæmt vegna þess að að mörgu leyti tengjast þessi lög og því hlýtur að vera hagkvæmt að nota tækifærið þegar verið er að kynna fyrri lögin að kynna barnaverndarlögin í leiðinni.
    Ég nefndi hér útgáfu sérstakrar handbókar um barnaverndarmál. Ég held að það sé mikilvægt að við fáum aðeins reynslu af þessum lögum og að tilbúnar verði þær mörgu reglugerðir sem á að setja um lögin áður en af útgáfu slíkrar handbókar verður. En ég get fullvissað hv. þm. um að það er unnið af fullum krafti að þessum málum í ráðuneytinu, m.a. að kynna þessi lög og halda sérstök námskeið um meðferð barnaverndarmála fyrir fulltrúa í barnaverndarnefndum og verður því haldið áfram eins og kostur er.