Börn í áhættuhópum

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 10:51:45 (6150)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Svo sem fram kom í máli mínu hér áðan um fyrstu fsp. er ég flutti um þessi mál, þá er hér um röð fyrirspurna að ræða varðandi framkvæmd barnaverndarmála og önnur fsp. er ég ber fram í dag varðar börn í áhættuhópum. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvað líður setningu reglugerðar um fyrirkomulag skráningar barna í áhættuhópum og meðferð upplýsinga, sbr. 20. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, og kynningu á efni laganna fyrir barnaverndarnefndum og starfsmönnum þeirra?``
    Þarna er raunar ekki síst átt við þessa grein en 20. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Barnaverndarnefnd skal halda sérstaka skrá um þau börn og ungmenni í umdæmi sínu sem hún telur að sé hætta búin skv. 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. í þeim tilgangi að tryggja yfirsýn og samfellda málsmeðferð í slíkum málum. Nú breytast aðstæður þannig að mati nefndar að barn telst ekki lengur í áhættuhópi og skal nafn þess þá ekki standa lengur í skránni. Foreldrum skal jafnan gerð grein fyrir að barn þeirra sé á skrá, sbr. 3. mgr. 43. gr., nema það komi í bága við hagsmuni barnsins að mati nefndarinnar. Ráðuneytið setur reglugerð um fyrirkomulag skráningar og meðferð upplýsinga í samræmi við lagaákvæði þetta og lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, nr. 121/1989.``
    Það þarf ekki að fjölyrða um það hversu viðkvæmt og stórt mál það er að lenda á slíkri skrá og jafnframt að það séu til skýrar reglur um hvernig slík skrá sé notuð börnunum í hag og einnig að það sé ekki hætta á því að slíkar upplýsingar berist víða, en jafnframt að fylgt sé ákvæðum þessarar lagagreinar á þann hátt að tryggð sé þessi yfirsýn og samfellda málsmeðferð sem brýnt er í þessum málum en það er jú markmið lagagreinarinnar. Ég held því að það sé nauðsynlegt bæði fyrir þá sem hér stendur og aðra að vita hvernig ráðuneytið hyggst standa að þessum málum og því ber ég eftirfarandi fsp. fram.