Unglingaheimili

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:07:00 (6156)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og ítreka það að ég tel að sú starfsemi sem hún taldi upp hér sé öll mjög brýn og einnig það sem er í farvatninu núna. Það er leitt að heyra að það skuli hafa orðið töf á uppbyggingu heimilisins sem Barnaheill standa að, en ég fagna því að það er ætlun ríkisstjórnarinnar að bregðast við þeim bráða vanda sem er vegna unglinga sem eru í e.t.v. erfiðasta og vandmeðfarnasta hópnum.
    En það sem fyrst og fremst vakir fyrir mér með þessari fsp. er að vekja athygli á því að þessi heimili eru nánast öll á sama stað á landinu og það er brýnt ef byggja á upp meðferð að hún geti farið fram ekki langt frá heimabyggð.