Tilsjónarmenn og stuðningsfjölskyldur

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:13:04 (6159)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Þá er komið að síðustu fsp. minni er varðar sérstaklega barnaverndarmál og í þessu tilviki raunar önnur mál einnig þar sem ákvæði um tilsjónarmenn, stuðningsfjölskyldur o.fl. hefur þegar verið framkvæmt og þar á ég við lög um málefni fatlaðra. En liðveisla, persónulegir ráðgjafar og stuðningsfjölskyldur eru úrræði sem ég held að óhætt sé að fullyrða að litið sé til með vaxandi áhuga og þá á ég bæði við í barnaverndarmálum og einnig að nú þegar hefur skapast reynsla og hefð af starfi stuðningsfjölskyldna er styðja og styrkja fatlaða og fjölskyldur þeirra.

    Í sumum tilvikum getur liðveisla hreinlega skipt sköpum um það hvort geðfatlaður elinstaklingur getur búið utan stofnunar. Stuðningsfjölskylda getur ráðið úrslitum um það hvort mikið fatlaður einstaklingur hefur tök á því að búa í heimahúsum og persónulegir ráðgjafar geta t.d. veitt barni eða ungmenni sem á í erfiðleikum þann stuðning sem nauðsynlegur er til að breyta erfiðu mynstri í lífi þessa barns eða ungmennis. Því held ég að það velkist enginn í vafa um hversu mikilvæg slík þjónusta er og hér eru þó aðeins tekin sárafá dæmi.
    Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því hvernig landið liggur nú, hve margir njóta nú stuðnings af þessu tagi, hve mikill hann er og hvernig greitt er fyrir hann. Þessar tölur gætu verið nýtilegar bæði til samanburðar við eldri tölur, þ.e. til þess að bera saman þróunina og eins til viðmiðunar í framtíðinni. Það er sérstakt áhyggjuefni raunar að það hefur heyrst að nú sé farið að skattleggja þá lágu upphæð sem greidd hefur verið fyrir þjónustu stuðningsfjölskyldna og það hlýtur að vekja spurningar um hvort ekki verði að hækka greiðslur sem því nemi eða með einhverjum öðrum hætti að leysa þau mál því að ég heyrði t.d. á námskeiði sem félagsmálastjórar héldu núna í upphafi þessarar viku, tveggja daga námskeiði um liðveislu og sjálfræði, raunar í tveggja manna tali en ekki í ræðu, af einni stuðningsfjölskyldu sem var að fá bakreikning frá skattinum upp á 90 þús. kr. Þetta er átakanlegt mál og ef fleiri slík dæmi eru, þá er ég hrædd um að fólk, hversu góðan vilja sem það hefur, hafi einfaldlega ekki efni á því að vinna þetta þarfa starf og þá held ég líka að þau úrræði sem til stendur að byggja upp í barnaverndarmálum muni aldrei verða barn í brók.