Tilsjónarmenn og stuðningsfjölskyldur

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:21:17 (6161)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að þessi svör gefi greinargott yfirlit yfir það hvernig þessi úrræði eru nýtt nú og ég held að engum blandist hugur um það að í þessum upplýsingum kemur fram að þær greiðslur sem tilsjónarmenn og stuðningsfjölskyldur fá eru ekkert til að hrópa húrra fyrir, raunar alveg smánarlega lágar fyrir mjög ábyrgðarmikið og gott starf. Fram til þessa hefur ekki verið heimtur skattur af þessu, en það er nýtt og skal ég ekki setjast í dómarasæti um hvort það sé rétt eða ekki, en hitt er ljóst að verði það til þess að fólk, sem hefur tekið þetta hlutverk að sér, oft og tíðum með afskaplega mikilli fyrirhöfn og ég vil segja tilkostnaði, geti ekki sinnt þessu hlutverki lengur, bara telji sér það hreinlega ekki fært, þá er afskaplega illa farið og þetta óttast ég að sé að gerast hér og nú.
    Þá getum við heldur ekki litið á stuðningsfjölskyldu sem úrræði í barnaverndarmálum eins og hljóðan nýju laganna segir þó til um. En ég vil benda á það að þetta er e.t.v. það úrræði sem helst er litið til, bæði í málefnum fatlaðra og málefnum barna sem eiga í erfiðleikum og það sem helst þyrfti að hlúa að og þróa en ekki að haga málum svo að fólk fáist ekki í þessi störf og jafnvel verði, eins og brögð eru að, að borga með sér í þessum störfum. Það er einfaldlega ekki hægt að hafa hlutina með þeim hætti. Þetta eru vandasöm störf sem þyrfti að launa vel.