Ráðstafanir vegna afnáms aðstöðugjalds

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:32:28 (6167)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Álögð aðstöðugjöld árið 1992 voru samkvæmt álagningarskrá 5 milljarðar 350 millj. kr. Hjá ríkisbókhaldi liggja fyrir upplýsingar um innheimtu þessara gjalda hjá 100 sveitarfélögum þar sem innheimtukerfi ríkisins sér um innheimtu. Samtals var álagning í þessum sveitarfélögum 4 milljarðar 466 millj. kr. Til viðbótar hefur ráðuneytið aflað upplýsinga hjá þeim kaupstöðum sem ekki eru í innheimtuþjónustu hjá ríkinu en þeir eru átta talsins. Ráðuneytið hefur því upplýsingar um innheimtu aðstöðugjalda í 108 sveitarfélögum sem samtals voru með álagt aðstöðugjald að upphæð 5 milljarðar 38 millj. kr. en það er um 94,2% af heildarálagningunni og ætti að gefa góða mynd af innheimtu aðstöðugjalds á árinu 1992. Að meðaltali innheimtu þessi sveitarfélög á árinu 1992 74,1% af álögðu aðstöðugjaldi 1992 og hefur þá verið tekið tillit til skattbreytinga sem aðeins leiddu til um 11 millj. kr. nettólækkunar á álagningu. Af þeim sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur upplýsingar um voru eftirtalin 48 sveitarfélög með meira en 80% innheimtu á álögðu aðstöðugjaldi 1992: Hafnarhreppur, Sandgerðishreppur, Borgarnes, Stykkishólmur, Snæfjallahreppur, Patrekshreppur, Árneshreppur, Hólmavíkurhreppur, Kirkjubólshreppur, Fellshreppur, Óspakseyrarhreppur, Sauðárkrókur, Skarðshreppur, Akrahreppur, Hólahreppur, Hofshreppur, Blönduós, Grímseyjarhreppur, Svarfaðardalshreppur, Hríseyjarhreppur, Arnarneshreppur, Öxnadalshreppur, Eyjafjarðarsveit, Ólafsfjörður, Húsavík, Vopnafjarðarhreppur, Hlíðarhreppur, Jökuldalshreppur, Tunguhreppur, Borgarfjarðarhreppur, Neskaupstaður, Eskifjörður, Skriðudalshreppur, Vallahreppur, Eiðahreppur, Mjóafjarðarhreppur, Norðfjarðarhreppur, Reyðarfjarðarhreppur, Búðahreppur, Beruneshreppur, Búlandshreppur, Geithellnahreppur, Bæjarhreppur, Borgarhafnarhreppur, Vestmannaeyjar, Skaftárhreppur, Fljótsdalshlíðarhreppur og Selfoss.
    Í nóvember sl. tók ríkisstjórnin þá ákvörðun að beita sér fyrir niðurfellingu aðstöðugjalds og það yrði gert með bráðabirgðabreytingum á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem giltu á árinu 1993 meðan unnið væri að því að finna sveitarfélögunum varanlegan tekjustofn í stað aðstöðugjaldsins. Fullt samkomulag var á milli ríkisstjórnarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga um framkvæmd málsins. Það var að tillögu fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga sem ákveðið var að taka 120 millj. kr. af framlagi ríkisins vegna niðurfellingar aðstöðugjaldsins og verja því til greiðslu jöfnunarframlaga skv. 14. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga en jöfnunarframlögin skiptast í tekjujöfnunar- og þjónustuframlög. Fyrirséð var að sú upphæð sem til ráðstöfunar var í þessi framlög á árinu 1993 mundi ekki duga til fullrar úthlutunar samkvæmt reglum sjóðsins. Þessi viðbótarupphæð bætir þar verulega úr. Í þessu sambandi er rétt að minna á það að aðstöðugjaldið var sveitarfélögunum misjafn tekjustofn og hvað það átti mikinn þátt í því að auka þörfina fyrir tekjujöfnunarframlög.
    Ljóst er að jöfnunarframlögin tryggja ekki tekjuháum sveitarfélögum, sem hafa jafnframt verið með mjög góða innheimtu aðstöðugjaldsins, sömu tekjur og áður. Hins vegar er jafnljóst að í heild munu sveitarfélögin fara vel út úr þessari breytingu árið 1993. Til viðbótar við tryggar greiðslur frá ríkinu á ákveðnum gjalddögum á 80% af álögðu aðstöðugjaldi fá þau líka eftirstöðvar innheimtu frá fyrri árum. Ekki hefur af hálfu ráðuneytisins verið nein fyrirætlun um að koma sérstaklega til móts við þau sveitarfélög sem voru með meira en 80% innheimtu aðstöðugjalds 1992, en mörg þeirra fá hlut sinn bættan með hækkuðum jöfnunarframlögum.
    Ráðuneytið hefur undanfarið orðið vart við óánægju örfárra sveitarstjórna þar sem aðstöðugjaldsinnheimtan hefur verið mjög góð. Af því tilefni hefur Sambandi ísl. sveitarfélaga verið skrifað og óskað eftir upplýsingum um hvort afstaða þess í málinu hafi tekið einhverjum breytingum og hvort þar hafi einhverjar nýjar tillögur fram að færa. Ég er að sjálfsögðu reiðubúin að skoða slíkar tillögur en ég hygg að þær yrðu þá að byggjast á tilflutningi tekna milli sveitarfélaga og þá með einhverjum hætti í gegnum Jöfnunarsjóðinn.