Ráðstafanir vegna afnáms aðstöðugjalds

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:36:49 (6168)


     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli. Ljóst er af svörum ráðherrans að það er ekki ætlunin að bæta sveitarfélögunum upp tekjumissi vegna aðstöðugjaldsins á yfirstandandi ári. Einn aðalþröskuldurinn í samstarfi ríkis og sveitarfélaga á undanförnum árum hefur verið trúnaðarbrestur milli þessara aðila. Þetta mun ekki laga

þann trúnaðarbrest því að forsvarsmenn þessara sveitarfélaga stóðu auðvitað í þeirri meiningu að þeir fengju aðstöðugjaldið bætt til bráðabirgða á þessu ári og þeir stæðu sléttir eftir. Nú er komið í ljós að þeir standa ekki sléttir. Það eru auðvitað athyglisverðar upplýsingar og það greiðir náttúrlega ekki fyrir samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ljóst er að þetta er enn einn þröskuldurinn í þeim samskiptum.
    Síðan er auðvitað annað mál hvaða tekjustofnar verða til frambúðar og á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga eru upplýstar hugmyndir um það að leggja 1 milljarð á atvinnulífið aftur af þessum aðstöðugjöldum í formi fasteignagjalda. Það er svo aftur annar hlutur. Þá eru stjórnvöld komin hringinn í þessum efnum.