Ráðstafanir vegna afnáms aðstöðugjalds

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:39:46 (6170)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja fram þessa fsp. Það hefði kannski verið gaman að sjá þriðja liðinn í þeirri fsp., þ.e. hvaða úrræði það væru sem stjórnvöld væru að skoða til þess að bæta til frambúðar upp tekjutap sveitarfélaganna vegna niðurfellingar á aðstöðugjaldi. En það sem hefur komið fram sýnir auðvitað það sem var augljóst í upphafi að að þessu máli hefur verið staðið með miklum flumbrugangi. Í raun og veru hefur ekkert það sem verið var að gera verið undirbúið. Það er ömurlegt að þurfa að horfast í augu við það að þegar þessi mikilvægi tekjustofn upp á um 4 milljarða er lagður niður er ekkert vitað hvað á að taka við. Það eru óljósar hugmyndir og þetta er afgreitt með bráðabirgðaráðstöfunum. Svo hafa neytendur horft framan í það að þegar þessi tekjustofn er lagður niður þá er gengið fellt um leið og enginn veit enginn hvað varð um niðurfellingu aðstöðugjaldsins í verðlagi í landinu.