Ráðstafanir vegna afnáms aðstöðugjalds

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:43:30 (6172)

     Össur Skarphéðinsson :
    Frú forseti. Mig langar að gera örstutta athugasemd í tilefni af orðum hv. þm. Jóhans Ársælssonar. Hann furðar sig á því að aðstöðugjaldið hafi verið aflagt og spyr: Átti ekki að gera neitt annað? Staðreyndin er sú að aðstöðugjaldið var aflagt með tiltölulega litlum fyrirvara. Hvers vegna var það? Vegna þess að það komu fram mjög skýrar og afdráttarlausar kröfur um það, ekki síst frá forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar og ekki síður frá ýmsum forustumönnum stjórnarandstöðuflokka. Ég minni til að mynda hv. þm. Jóhann Ársælsson á merka ritgerð sem lögð var fram í þinginu, að vísu ekki sem opinbert þskj. heldur í hólf þingmanna. Höfundur þeirrar ritgerðar var hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og ég veit að hv. þm. Jóhann Ársælsson kannast talsvert við hann. Þar var rætt um þetta. Þar var gerð tillaga um þetta. Svo kemur hér hv. þm. og er undrandi á þessu. Vitaskuld er það svo að ríkisstjórnin tók vel á þessum hugmyndum sem komu frá formanni Alþb. og forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar, og tók þá ákvörðun, e.t.v. af nokkurri skyndingu, að leggja aðstöðugjaldið af. Þess vegna er ekkert óeðlilegt þó að það þurfi svolítið ráðrúm að finna hvaða tekjustofna sveitarfélögin eigi að fá í staðinn.
    Varðandi það sem þingmaðurinn sagði um að verðlagsáhrif afnámsins kæmu ekki fram vegna gengisfellingarinnar þá er það eigi að síður svo að það hefur verið reiknað út að verðlag sökum þess á að lækka um 1,5%, er 1,5% lægra en það hefði ella verið. Því hefur ekki verið mótmælt. Höfundur ritgerðarinnar, hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, hefur ekki mótmælt því heldur.