Fasteignamat ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:01:53 (6178)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við fyrri fsp. vil ég segja þetta: Samkvæmt frv., sem lagt verður fyrir Alþingi alveg á næstunni, jafnvel í dag, eða næsta þingdag, er gert ráð fyrir að stofnuninni verði sett stjórn. Hlutverk hennar verður að hafa eftirlit með störfum stofnunarinnar, móta starfsemina og innra skipulag og gera tillögur um gjaldskrá. Gert er ráð fyrir að Samband ísl. sveitarfélaga tilnefni einn mann af þremur í stjórnina, enda hafa sveitarfélög verulegra hagsmuna að gæta af starfi Fasteignamats ríkisins þar sem fasteignagjald sem er mikilvægur tekjustofn þeirra er reiknað út frá fasteignamati.
    Svar við síðari fsp. er þetta: Stofnunin er nú með útibú á fjórum stöðum á landsbyggðinni, þ.e. í Borgarnesi, á Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Þar starfa 10 af 35 starfsmönnum hennar. Það hefur verið til skoðunar hjá stofnuninni að fjölga útibúum. Umfang matsstarfanna á þeim stöðum sem til greina hafa komið hefur hins vegar ekki verið nægjanlegt að mati Fasteignamats ríkisins til þess að fjárhagsgrundvöllur væri fyrir fleiri útibúum, t.d. á Hólmavík, en sá staður var nefndur í ræðu hv. fyrirspyrjanda.
    Ég lýsi því yfir að lokaorð bréfsins sem lesið var hér áðan hafa ekki borist á borð ráðherrans og ég ætla ekki að bera ábyrgð á því orðalagi sem þar er valið sem ég skal viðurkenna að er harla sérkennilegt svo ekki sé nú dýpra í árinni tekið þegar um opinbera stofnun er að ræða nema það sé skrifað á milli kunningja þar sem þetta sé einhvers konar húmor og þá gæti verið að bréf, sem sent hafi verið stofnuninni, gæti gefið tilefni til þessa orðalags. Um það get ég ekki dæmt því að ég hef ekki séð þessi bréfaskipti.
    Ég vil hins vegar að lokum segja það að með þessu frv. hyggst ríkisstjórnin fylgja eftir því sem lesa má á bls. 334 í fjárlagafrv. Frv. til breytinga á lögum um Fasteignamatið verður vonandi til umræðu í næstu viku og þá gefst að sjálfsögðu betri tími til umræðna um Fasteignamatið og starfsemi þess.