Lögregluskóli ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:09:15 (6181)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 705 hef ég lagt nokkrar spurningar fyrir hæstv. dómsmrh. um Lögregluskóla ríkisins. Ég vil skýra spurningarnar nokkrum orðum áður en ég vík að þeim beint.
    Á undanförnum mánuðum hefur það vakið athygli mína að meðal afleiðinga af sparnaðar- og aðhaldsaðgerðum í ríkisrekstrinum eru raunverulegar fækkanir í stöðugildum lögreglumanna. Þetta virðist hins vegar hafa bitnað nokkuð áberandi á ungum, efnilegum lögreglumönnum, sem hafa verið sendir á vegum embætta sýslumanna og lögreglustjóra til náms í Lögregluskóla ríkisins, en vel að merkja þar koma ekki aðrir til náms en þessir embættismenn velja til. Þrátt fyrir að þeir hafi verið valdir til þessa náms, lokið fyrri hluta, hafi engar athugasemdir um frammistöðu í því námi eða starfi, reynast þeir síðan ekki koma til álita eða a.m.k. ekki vera valdir til framhaldsráðningar eða framhaldsnáms, jafnvel valdir aðrir einstaklingar sem ekki höfðu lokið fyrri hlutanum sem eftir mínum upplýsingum er hinn dýrari hluti þessa náms.
    Ég hef velt fyrir mér hvort þessir menn kunni að hafa einhvern rétt til að stunda námið og ljúka því, hvort þeir hafi einhvern rétt til að sækja um stöður sem kunna að losna og þess vegna, virðulegur forseti, ber ég fram fyrir hæstv. dómsmrh., eftirfarandi spurningar um Lögregluskólann:
    1. Bera embætti lögreglustjóra eða sýslumanna kostnað af námi þeirra lögreglumanna sem eru í Lögregluskólanum á þeirra vegum?
    2. Hve margir hafa lokið fyrri hluta skólans en ekki sótt síðari hluta? Hafa þeir einhvern rétt við umsókn um lögreglustörf sem losna?
    3. Hversu margir hafa ekki lokið námi af þeirri ástæðu að þeim hefur verið sagt upp starfi áður en námi í skólanum lauk? Það er áður en kom til síðari hluta námsins.
    4. Býðst þeim að sækja beint um skólavist?