Lögregluskóli ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:14:42 (6183)

     Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin við þessum spurningum og vænti þess að mér takist að vinna úr þeim eftir því sem til stóð.
    Þær eru að vísu nokkuð margbrotnar og ég er ekki viss um að fram hafi komið

hvort þessir einstaklingar eiga þess kost að sækja beint um skólavist. Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt þá er það bundið því að þeir séu þar á vegum embætta. Ég ætla ekki að óska þess að ráðherrann beiti sér fyrir breytingum að svo stöddu en mér virðist umhugsunarefni hvort unnt verður í framtíðinni að móta þennan skóla líkt og aðra hér á landi eða líkt og þær starfsmenntabrautir sem fyrir eru í okkar skólakerfi sem bjóða í dag nánast öllum stéttum upp á fullnaðarnám innan hins almenna skólakerfis.
    Nú er það hins vegar svo að störf lögreglumanna eru mjög sérstök og því hugsanlegt að ekki verði unnt að koma þessu við um þeirra starfsnám. En mér virðist samt sem áður að það sé fyrirliggjandi að einhverjir lögreglumenn hafi verið sendir til fyrri hluta náms á vegum embætta, hafi lokið námi svo að fullnægjandi sé, hafi ekki athugasemdir við frammistöðu í starfi, en samt sem áður ekki átt þess kost að ljúka náminu eða hljóta fastráðningu. Og mér virðist hugsanlegt enn þá að aðrir hafi verið valdir til fastráðningar án nokkus náms en síðar verið sendir í námið.