Ráðstafanir til orkusparnaðar

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:19:59 (6185)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Varðandi fyrsta lið fyrirspurnarinnar vil ég segja þetta: Kannaðar hafa verið og bornar saman upplýsingar frá ýmsum löndum um leiðir til að draga úr mengun frá útblæstri bensín- og dísilvéla. Reglur um hámark mengandi efna í útblæstri bifreiða hafa í framhaldi af því verið endurskoðaðar, m.a. með hliðsjón af bestu fáanlegri tækni. Þær reglur sem eru í gildandi mengunarvarnareglugerð fela m.a. í sér að allri fólksbílar, sem hafa verið fluttir til landsins eftir 1. júlí 1992 og knúnir eru bensínvél, eru með svokallaða hvarfakúta sem draga mjög verulega út mengun. Verið er að kanna og undirbúa hvaða reglur er raunhæft að setja um mengun frá bifreiðum sem eru knúnar dísilvélum.
    Einnig má nefna að ráðuneytið hefur lagt áherslu á að auka notkun á blýlausu bensíni og að framfylgja banni við lausagangi bifreiða. Þá skipaði ég í ágúst sl. nefnd til að gera tillögur um aðgerðir til að auka notkun rafbíla á Íslandi með það fyrir augum að draga úr mengun og auka um leið notkun innlendra orkugjafa. Ég geri ráð fyrir að fá skýrslu frá þessari nefnd nú alveg á næstunni.
    Hvað varðar önnur úrræði sem miða að orkusparnaði þá heyrir það nú kannski ekki síður undir iðnrn. en í samráði við það ráðuneyti erum við að kanna möguleika á að nýta innlendar orkulindir til eldsneytisframleiðslu. T.d. er nefnd sem skipuð var af iðnrh. og umhvrn. á aðild að að kanna niðurstöður rannsókna og tilrauna er lúta að nýtingu orkugjafa sem geta í einhverjum mæli komið í stað olíu og bensíns.
    Varðandi annan lið fyrirspurnarinnar vildi ég þetta sagt hafa: Eins og fram kemur í þeirri skýrslu sem hv. þm. vitnaði til, stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum og leið til sjálfbærrar þróunar, þá er stefnt að því að draga úr olíunotkun fiskiskipaflotans svo og bensín- og olíunotkun samgöngutækja og vinnuvéla og stuðla að aukinni notkun raforku í iðnaði. Það má nefna að nýlega skilaði nefnd áliti sem miðar að því að auka notkun rafmagns í skipum sem liggja í höfnum landsins. Þá er að störfum önnur nefnd, sem iðnrh. skipaði í samráði við umhvrh., sem leitar leiða til að draga úr notkun olíu í fiskimjölsiðnaði og nota raforku í stað olíu.
    Um þriðja liðinn vildi ég segja þetta: Eins og fram kom í svari mínu hér áðan við fyrstu spurningunni þá er það á verksviði umhvrn. að setja reglur um hámark mengandi efna í útblæstri bifreiða. Þær reglur sem settar voru miðast við bestu fáanlega tækni á hverjum tíma og þar verður ráðuneytið að styðjast við upplýsingar frá viðurkenndum innlendum og erlendum stofnunum á því sviði. Þannig er að hvorki ráðuneyti né stofnanir þess hafa möguleika á að prófa einstök tæki eða annan búnað sem notaður er í þessu skyni. Það er hins vegar á verksviði dómsmrn. að setja reglur um gerð og notkun bifreiða.
    Nokkur umræða hefur orðið um notkun brennsluhvata í bensín- og dísilvélar til að minnka mengun og spara orku, m.a. hefur ráðuneytinu borist mikið af gögnum um svokallaða ,,powerplus``-hvata. Starfshópur á vegum ráðuneytisins hefur verið að kanna þessi gögn og önnur sambærileg og í þessum starfshópi eru fulltrúar ráðuneytisins, Hollustuverndar og Bifreiðaskoðunar Íslands. Endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir en þær upplýsingar og prófanir sem borist hafa frá söluaðila benda til þess að tekist hafi að minnka mengun og draga úr orkunotkun þar sem þessi búnaður hefur verið notaður. Gagna hefur verið aflað hjá óháðum aðilum um þennan búnað, m.a. vegna þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem Hollustuvernd ríkisins hefur um loftmengun frá bifreiðum og leiðir til að draga úr henni er hvergi mælt með þessum eða sambærilegum búnaði. Niðurstöðu þessa starfshóps er að vænta innan tíðar.
    Að lokum vil ég taka fram að enginn dómur hefur verið lagður á gildi þessa ,,powerplus``-hvata enn þá enda að mörgu að hyggja. Það þarf að kanna t.d. mjög rækilega hvort þessi búnaður kunni að hafa skaðlegar aukaverkanir í för með sér, t.d. hvort þau lífrænu tinsambönd sem eru í þessum búnaði gætu hugsanlega borist út í andrúmsloftið en það liggja ekki fyrir neinar upplýsingar. Tel ég þá, virðulegi forseti, að með þessum orðum sé fyrirspurnum hv. þm. svarað.