Ráðstafanir til orkusparnaðar

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:26:47 (6187)


     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að það er vissulega ástæða til að leita leiða til að spara orku og minnka mengun. Ég nefni í þessu sambandi að iðnrn. beitti sér fyrir allmörgum árum fyrir verulegu átaki til að auka orkusparnað, t.d. við upphitun íbúðarhúsnæðis, það skilaði mjög verulegum árangri. Það er auðvitað alveg rétt að það þarf að halda þessu áfram og gera það á fleiri sviðum.
    Af því sem mér er í minni á þessu augnabliki þá man ég og veit að umhvrn. skrifaði t.d. forráðamönnum Strætisvagna Reykjavíkur og benti á að það væri óþarfi að láta vagnana vera í lausagangi allan þann tíma sem þeir bíða á aðalmiðstöðinni inni á Hlemmi og í öðru lagi væri líka algjör óþarfi að láta vagnana vera í lausagangi inni á Kirkjusandi allar frostnætur, það mætti auðveldlega halda olíunni og vélunum volgum eins og betra er í miklum kuldum með því að nota rafmagnshitun. Það væri tilölulega mjög auðvelt og einfalt að koma því fyrir. Þessum ábendingum komum við á framfæri. Ég nefni þetta bara sem eitt lítið dæmi um það að við fylgjumst með og reynum að bregðast við og bregðumst við þeim erindum sem til okkar berast. En það er líka rétt að á þessum sviðum má sjálfsagt ævinlega gera betur.