Innflutningur á gröfupramma

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 13:06:32 (6194)

     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að bæta við neitt það sem ég sagði varðandi þá atburðarás sem hér hefur orðið í sambandi við þetta mál og aðdragandann að þessari afgreiðslu. Ég tók fram að það væri ekki eins og við hefðum helst kosið.
    Hv. 3. þm. Vesturl. sagði réttilega frá því að fyrir Alþingi liggur frv. til laga um eftirlit með skipum sem við höfum til meðferðar í samgn. og við eigum þar báðir sæti. Ég taldi ekki ástæðu í framsögu að fara að fjalla um það frv. en varðandi þau aldursmörk sem þar er gert ráð fyrir að kveða á um og kveðið er á um í gildandi lögum, þá er það skoðun þeirra manna sem ég hef rætt við og teljast vera kunnáttumenn í þessum efnum að aldursmörk þurfi ekki endilega að ráða um gæði eða haffæri skipa. Ég hygg að við nefndarmenn í samgn. munum ræða það mjög ítarlega á hvern máta við kjósum að skipa þeim ákvæðum í okkar tillögum. En ég get sagt fyrir mitt leyti að ég tel ástæðu til þess að þau aldursmörk verði a.m.k. rýmkuð eða felld burtu varðandi tæki af þessum toga og ýmis slík skip sem ekki teljast til fiskiskipa og e.t.v. til farskipa. Það munum við ræða frekar.
    Það er út af fyrir sig hægt að geta þess að fyrir samgn. liggur beiðni frá Slysavarnafélagi Íslands þess efnis að fá heimild til þess að flytja inn björgunarbát sem félagið á kost á á mjög lágu verði og sem,

að þeirra dómi, er góður björgunarbátur sem mundi henta starfsemi félagsins vel. Það hefur ekki verið tekin nein afstaða til þess máls enn þá en þannig geta komið upp tilvik sem sanna að það er óheppilegt að hafa þessi aldursmarkaákvæði allt of þröng að því er varðar ýmis slík skip og tæki eins og þau sem hér eru nefnd og t.d. þau sem nefnd eru í ýmsum þeim fordæmum sem verið hafa um lagasetningu af því tagi sem við erum að leggja til að hér verði afgreidd.
    Þetta munum við fjalla nánar um og vænti ég að við komumst þar að viturlegri niðurstöðu.
    Ég get svo aðeins beðist afsökunar á því að ég tók ekki eftir því að einn fulltrúi stjórnarandstöðuflokkanna hafði skrifað undir nál. án fyrirvara en var ekki með því að drótta neinu að honum um það að hann hefði skipt um flokk eða fylkingu og hygg ég að afsökunarbeiðni mín hljóti að verða tekin til greina.