Innflutningur á gröfupramma

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 13:13:00 (6196)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja umræðuna um afgreiðslu þessa máls. Ég tek undir það með formanni og frsm., hv. þm. Pálma Jónssyni, að hér er auðvitað ekki um skip að ræða í þeim skilningi heldur vinnupramma sem flokkast undir skip við þessar aðstæður. Ég styð að málið fái þennan framgang. Ég vil þó skýra frá því og skrifa þess vegna ekki undir með fyrirvara undir þetta mál. Ég tel sjálfsagðan hlut að verða við því. Við höfum fengið svör við öllu því sem við spurðum um í nefndinni. Það sem ég gagnrýndi í nefndinni og taldi óeðlilegt er það sem hér hefur komið fram, hvernig staðið hefur verið að málinu af hálfu samgrn. og Siglingamálastofnunar. Það hlýtur að vera mjög óeðlilegt þegar það þarf lög að það skuli hafa gerst í júlí í fyrra að þetta skip er flutt inn með leyfi samgrn. en þó þeim fyrirvara að það þurfi lög til, en nokkrum vikum síðar er Siglingamálastofnun búin að skrá prammann löglegan og hann hefur hafið störf í landinu. Þetta er eins og að fremja glæp og biðja svo um lagabreytingu á eftir. Með þessari röð eiga mál ekki að fara fram. Ég vænti þess að það hafi komið fram í framsöguræðu framsögumanns að við þessar aðstæður væri eðlilegt að áminna Siglingamálastofnun um að skrá prammann.
    En ég tek undir það sem ég sagði í upphafi að hér er ekki um skip að ræða, hér er vinnuprammi sem sjálfsagður hlutur er að gefa leyfi fyrir og það gangi í gegnum þingið en ég tel mjög mikilvægt að Alþingi sé ekki einhver afgreiðslustofnun þar sem menn geti gert hitt og þetta, komið síðan og beðið um að málið fari í gegn þegar verkfærið er búið að vera marga mánuði í vinnu í landinu.
    En ég lýk máli mínu með því, forseti, að ég styð stjórnarliðana og þarf engan fyrirvara um það hvað þetta mál varðar. Ég tel eðlilegt að það fari í gegnum þingið úr því sem komið er.