Skálholtsskóli

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 13:51:33 (6198)

     Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 745, 297. mál, um frv. til laga um Skálholtsskóla, frá allshn.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Þorbjörn Hlyn Árnason biskupsritara. Umsagnir bárust frá biskupi Íslands, Collegium musicum, guðfræðideild Háskóla Íslands, héraðsnefnd Árnesinga, menntamálaráðuneytinu, Prestafélagi Íslands, prófastinum í Árnessýslu og söngmálastjóra þjóðkirkjunnar.
    Markmið frumvarps þessa er að treysta starfsemi skólans og efla tengsl kirkju og þjóðlífs. Gert er ráð fyrir að Skálholtsskóli heyri undir þjóðkirkjuna en ríkið taki þátt í kostnaði af rekstri hans samkvæmt samkomulagi þar um (sjá fskj. I með frumvarpinu). Lagt er til að kirkjuráð skipi skólaráð til fjögurra ára í senn og að skólinn starfi einkum á þremur sviðum: guðfræði-, kirkjutónlistar- og fræðslusviði.
    Málið var einnig lagt fram á 115. löggjafarþingi en því hefur verið breytt og mestu ágreiningsefnin sniðin af.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt að flytja breytingartillögur eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.

    Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Ingi Björn Albertsson og Ólafur Þ. Þórðarson. Undir álitið skrifa Sólveig Pétursdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Björn Bjarnason, Eyjólfur Konráð Jónsson, Jón Helgason, Sigbjörn Gunnarsson og Kristinn H. Gunnarsson. Sá síðastnefndi með fyrirvara.
    Virðulegi forseti. Ég vil nefna fáein atriði varðandi Skálholtsskóla, m.a. um þau ákveðnu svið sem frv. gerir ráð fyrir og biskupsritari lagði áherslu á við nefndina.
    Frv. um Skálholtsskóla felur í sér breytt rekstrarform frá því sem gildandi lög gera ráð fyrir. Forsendur fyrir hefðbundnu lýðháskólaformi eru ekki lengur fyrir hendi. Skólinn hefur þess vegna undanfarin ár starfað sem námskeiða- og ráðstefnumiðstöð.
    Með staðfestingu þessa frv. verður unnt að varðveita og þróa áfram það sem best hefur gefist í starfsemi skólans undanfarin ár. Enda þótt ekki verði starfræktur lýðháskóli í Skálholti verða tengsl við lýðháskólahreyfingar á Norðurlöndum rækt áfram. Skólinn mun þannig geta gegnt mikilvægu hlutverki í norrænu samstarfi.
    Innan guðfræðisviðsins verður lögð áhersla á þjálfun guðfræðikandítada. Samkvæmt lögum nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, skulu guðfræðikandítatar undirgangast fjögurra mánaða þjálfun á vegum biskupsembættisins áður en þeim er heimilt að sækja um prestsembætti innan þjóðkirkjunnar. Skálholtsskóli mun geta gegnt mikilvægu hlutverki í þessu tilliti. Í febrúar voru þrír guðfræðikandítatar á vikunámskeiði í Skálholtsskóla þar sem fjallað var um messuna, helgihald og fleira. Þá er áformað að stofna til endurmenntunarnámskeiða fyrir starfandi presta þjóðkirkjunnar og hafa um það samstarf við guðfræðideild háskólans og Prestafélag Íslands.
    Varðandi fræðslusviðið er einkum um tvennt að ræða: Að í Skálholtsskóla verði áfram boðið upp á fræðslu fyrir starfsfólk kirkjunnar, þ.e. starfsfólk í barna- og æskulýðsstarfi, meðhjálpara, kirkjuverði, sóknarnefndarfólk og þá einnig fræðslu um kirkju og kristna trú í formi námskeiða og ráðstefna er miðast við þarfir almennings. Námskeið fyrir fermingarbörn á Suðvesturlandi hafa verið ríkur þáttur í starfsemi skólans síðustu ár og áfram verður hann staður fyrir þau. Kyrrðardagar verða áfram á dagskrá skólans.
    Þá er áformað að kanna hvernig Skálholtsskóli getur starfað að fræðslumálum til gagns fyrir byggðirnar í nágrenninu.
    Varðandi kirkjutónlistarsvið verður haldið áfram samstarfi við embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar en undanfarin ára hafa verið haldin námskeið fyrir kirkjukóra og organista í Skálholti. Þar hafa einnig verið söngbúðir fyrir kirkjukóra. Þjálfun og leiðsögn fyrir stjórnendur barnakóra í kirkjum er nýr þáttur í starfi Skálholtsskóla á þessum vetri. Reynt verður að auka samstarf yfir sumartónleikana í Skálholti.
    Meginhlutverk Skálholtsskóla verður að þjóna kirkju og þjóð og það gerði Skálholtsstaður um aldaraðir. Í þessum skóla verður leitast við að styrkja innviði og kirkjulega starfsemi. Einnig verður þar vettvangur fyrir almenna fræðslu, vettvangur fyrir skoðanaskipti, trú, lífsviðhorf og menningu þar sem þeir er

orðastað vilja eiga við kirkjuna verða velkomnir. Áhersla verður lögð á tengsl kirkju og skóla, skólum er starfa í skjóli helgidómsins og helgihald verður ríkur þáttur í allri starfsemi skólans. Öflug fræðslustofnun í Skálholti er þó einnig vitaskuld liður í uppbyggingu Skálholtsstaðar þannig að í Skálholti verður lifandi starfsstöð íslensku þjóðkirkjunnar, athvarf og heimili er gagnist kirkjunni allri.