Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 14:03:59 (6201)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Þetta frumvarp til laga um vernd og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, öðrum en hvölum er nú lagt hér fram á Alþingi í annað sinn. Hv. þm. muna það eflaust að þegar þetta frumvarp var lagt fram á síðasta þingi þá urðu alllíflegar umræður um efni þess og ekki allir á eitt sáttir um fjölmörg ákvæði. Ég vil nú segja samt að þær umræður allar voru mjög málefnalegar. Nú hefur hæstv. umhvrh. lagt frumvarpið fram í annað sinn og tekið tillit til mjög margra ábendinga sem fram komu í þeim umræðum. Frumvarpið í þeirri gerð sem það er lagt fram nú svarar einmitt mörgum þeim gagnrýnisorðum sem þá voru lögð fram og er tillit til þeirra tekið á margan hátt þannig að ég vænti þess að nú gæti orðið betri og meiri samstaða um þetta mál. Það er mjög brýnt að sett verði heildarlöggjöf um þessar veiðar og hér er einmitt hvort tveggja í senn verið að samræma í lög ákvæði laga og svo hins vegar að færa þessi lög til nútímahorfs.
    Ég vil eigi að síður gera að umtalsefni í örstuttu máli 11. gr. frv. en um þá grein hef ég fyrirvara og hæstv. umhvrh. er kunnugt um þann fyrirvara en 11. gr. fjallar einmitt um hið svokallaða veiðikort og gjald sem greitt er fyrir það.
    Ég er sammála því markmiði sem lagt er til grundvallar um það að gefin verði út veiðikort og þau afhent fyrir hóflegt gjald. Hæstv. umhvrh. hefur lýst því og það segir frá því í greinargerð með frv. að grundvöllurinn undir útgáfu veiðikorta og gjaldinu er sá að koma á fót eftirliti með stofnum dýra sem veiðar eru stundaðar á. Með öðrum orðum, að reyna að virkja veiðimenn til samstarfs um það að auka rannsóknir og eftirlit með þeim dýrategundum sem fjallað er um.
    Ég er mjög sammála því að það þurfi að leita allra ráða til þess að kalla veiðimenn til samstarfs um að efla rannsóknir og síðast en ekki síst, reyna að fá þá til liðs við það að þessar upplýsingar geti legið fyrir. Það verður að segjast eins og er að við höfum harla litlar upplýsingar um fjölmarga stofna sem við stundum veiðar á og það þarf að finna einhvers konar fyrirkomulag sem getur virkjað veiðimennina til samstarfs um þetta markmið. Ég hef efast um það að sú aðferð að skylda menn til þess að endurnýja veiðikort sitt árlega og borga fyrir það hóflegt gjald geti tryggt að árangur náist um það að fullnægja þessu markmiði. Ég óttast það mjög að þessi veiðikortaútgáfa verði í tímans ráðs hefðbundin og að lítt mark verði takandi á þeim veiðiskýrslum sem veiðimönnum er gert að skila, ekki vegna þess að ég treysti ekki veiðimönnum mjög vel til að halda dagbækur, sem þeir gera mjög margir, um veiði, stað og stund o.s.frv. heldur hitt að þetta verði fremur spurning um afgreiðslu en um það að veita þessar upplýsingar eins og ætlast er til.
    Þá hefur það einnig vakið ugg á meðal veiðimanna varðandi gjaldtökuna að þetta eigi að verða einhver tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Ég er þess fullviss að sá er alls ekki tilgangurinn með gjaldinu að hér sé verið að skapa einhvers konar tekjugrundvöll fyrir ríkissjóð. Kann að vera að skapist einhverjar tekjur sem ég treysti mjög vel að verði nýttar til þess að efla rannsóknarstarfið. En þarna gætir eigi að síður uggs og það er hægt að taka undir það að hugsanlega yrði í starfi umhvrh. og hugsanlega væri hér við völd ríkisstjórn sem ekki væri jafnvinveitt veiðimönnum eins og raun ber vitni. Hún freistaðist til þess þar sem heimildin væri til staðar að nýta þennan stofn til tekjuöflunar. Þetta þurfum við að skoða mjög gaumgæfilega.
    Ég hef verið að spyrja veiðimenn um það hvort til sé einhver önnur aðferð til þess að virkja þá til samstarfs í sambandi við upplýsingaöflunina og rannsóknastarfsemina. Þeir hafa enn ekki getað bent mér á neina afgerandi leið sem hér gæti komið í staðinn en þetta þurfum við að skoða mjög vandlega í nefndinni þegar málið kemur þar til umfjöllunar.
    Virðulegi forseti. Það er annað ákvæði í þessum lögum sem ég vil vekja athygli á og það er að samkvæmt 6. gr. frv. eru öll villt dýr nú í raun og veru friðuð önnur en mýs, rottur og minkar. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa tekið eftir því, en áður þegar þetta frv. var lagt hér fram á síðasta þingi, þá voru í þessum hópi dýra einungis mýs og rottur en nú eru minkar komnir í þennan hóp réttdræpra dýra. Það mætti halda hér langt mál um skaðvaldinn, minkinn, í náttúru landsins sem ég held að sé meiri skaðvaldur en margan grunar og vil af þessu tilefni beina þeim orðum mínum til hæstv. umhvrh. að hann haldi áfram að standa dyggan vörð um það að minkastofninum verði haldið í skefjum eins og kostur er. Það er álit sérfræðinga og þeirra sem gleggst þekkja, að honum verði tæpast útrýmt úr þessu en þar sem skipulega hefur verið staðið að veiðum hefur árangurinn sýnt að þessum stofni megi halda verulega í skefjum og þar með þeim skaða sem minkurinn veldur í náttúru og umhverfi landsins.
    Þá er það annað atriði sem mig langaði líka til að nefna, virðulegi forseti, og það er í sambandi við 14. gr. frv. sem fjallar um hreindýrin. Um þau mætti hafa langt mál. Síðasta setning þessarar greinar hljóðar svo: ,,Eignarréttur á landi, þar sem hreindýr halda sig, veitir ekki rétt til veiða á hreindýrum.`` Nú ætla ég ekki með þessum orðum að boða það að hér þurfi að taka öðruvísi á málum heldur þurfi að athuga það mjög gaumgæfilega hvort þetta ákvæði frumvarpsins kann á einhvern hátt að brjóta í bág við önnur lög er kveða á um eignarrétt og nytjar lands. Það er nú svo, alla vega gagnvart þeim sem til þekkja og umbera hreindýrin yfir veturinn, að þeir geta borið af þeim mikinn skaða. Þetta eru falleg dýr, en fyrir þá sem þurfa að búa í nábýli við þau og sjá allan þann umhverfisskaða sem hjarðirnar valda á vetrurna og bera af því kostnað líka, og þá á ég við landeigendur, þeir hljóta að spyrja sig að því þegar öll umræðan stendur sem hæst um beitarmál þjóðarinnar hvort ekki megi beita einhverjum aðgerðum til að sporna við ofbeit hreindýra sem er víða stórt vandamál. Hv. þm. hafa heyrt sagt frá því í fréttum og séð myndir af því í sjónvarpi hvernig hreindýrin hafa farið með skóga víða á Austurlandi en það er ekki einvörðungu gagnvart trjánum sem þau geta verið skaðvaldar heldur líka viðkvæmu landi.
    Þetta vildi ég nefna og einnig velta upp þeirri spurningu að ef eignarréttur á landi veitir ábúanda ekki einhvern rétt gagnvart því að nýta hreindýrin, nýta þessi hlunnindi, þá er spurningin sú hvort ríkissjóður eða réttara sagt ríkisvaldið sé ekki með einhverjum hætti skaðabótaskylt gagnvart landeigendum sem umbera hreindýrin vetur eftir vetur og bera umhyggju fyrir sínu landi. Þetta er ég ekki að segja til þess að gagnrýna þessa grein heldur vekja athygli á að þetta þurfi að skoða mjög gaumgæfilega. Það hefur verið mjög gott samkomulag um það að landeigendur sem umbera hreindýrin nytu góðs af hlunnindum þeirra og sú hefð hefur skapast í gegnum tíðina og er staðfest í þeirri reglugerð sem hæstv. umhvrh. hafði að töluverðu leyti forustu um að setja. Spurningin er sú hvort til þessa þurfi að taka tillit í sambandi við lagagerðina sjálfa.
    Virðulegi forseti. Það er rétt að vekja athygli á því að það eru í gildi mjög góð lög um lax- og silungsveiði. Til þeirra er vitnað hér í umsögn varðandi 11. gr. frv. og tekið tillit til þeirra þegar verið er að tala um hin svokölluðu veiðikort og veiðiskráningu. Einn er þó munur á ákvæðum þessa frumvarps og ákvæðum laga um lax- og silungsveiði að þar er það landeigandinn eða veiðifélagið sem ber ábyrgð á upplýsingaskyldunni en ekki veiðimaðurinn. Þá verðum við að hugsa til þess hvort það sé orðinn grundvöllur til að í lög verði sett ákvæði er heimili stofnun veiðifélaga um veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Þetta er hugmynd og þetta er nokkuð sem ég held að verði að taka afstöðu til, hv. umhvn. verði að skoða þegar þetta frv. verður tekið þar til umfjöllunar.
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir það að leggja þetta mál fram aftur og tel það mjög brýnt að hægt verði að ná samstöðu um lög er fjalli um þessi efni. Ég vil líka þakka hæstv. umhvrh. fyrir það að hafa tekið jafnríkulegt tillit til hinna fjölmörgu athugasemda sem komu fram í annars málefnalegum umræðum þegar þetta frumvarp var fyrst flutt.