Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 14:56:11 (6205)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Mér hefur nú unnist tími til að skoða gildandi lög og vildi leiðrétta eitt atriði sem ég fór með áðan enda rifjast það upp fyrir mér að frv. það sem við Stefán Jónsson heitinn fluttum náði víst aldrei nema í gegnum efri deild og komst aldrei inn í lög. Við fylgdum því hins vegar ætíð. ( Umhvrh.: Efri deild var nú alltaf miklu betri.) Já, það er rétt, en það komst ekki lengra. Við sátum þar þá. Nú er í lögum þess eingöngu krafist að hlaupvídd haglabyssu sé ekki meiri en 12 kalíber og ekkert segir þar um bann við sjálfvirkum skotvopnum svo að ég vil leiðrétta það. Hins vegar vil ég um leið benda á að í gildandi lögum er ákvæði sem skylda ríkissjóð að greiða bætur fyrir veiðitæki sem bönnuð verða. Með leyfi forseta segir svo:
    ,,Nú hefur maður komið sér upp veiðitækjum samkvæmt fuglaveiðisamþykkt, sbr. síðasta málslið 51. gr. o.s.frv., sem óheimilt verður að nota eftir þessum lögum og skal þá ríkissjóði skylt að greiða honum bætur ef hann krefst þess fyrir veiðitækin samkvæmt mati.``
    Ég hygg að slíkt ákvæði sé ekki í þessu frv. en það væri forvitnilegt að vita hvernig hæstv. ráðherra lítur á það. Þarna er a.m.k. boltinn gefinn upp í gildandi lögum og mér er ekki ljóst hvort það stæðist að banna þessi veiðitæki, sem menn hafa keypt í góðri trú, án skaðabóta.