Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 14:58:14 (6206)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil þakka fyrir flutning þessa frv. Ég tel að það hafi tekið talsverðum endurbótum síðan við sáum það síðast og það sé tvímælalaust fengur og mikil nauðsyn á því að fá lagasetningu um þetta efni. Ég tel að þetta frv. sé samið í góðri meiningu en það eru örfá atriði sem mig langar til þess að biðja hv. nefndarmenn í umhvn. að hugleiða og e.t.v. taka til umræðu við meðferð málsins.
    Í fyrsta lagi er þetta mikið miðstýringarfrv. og það er í því leyfafargan. Nú er ég ekki að segja að leyfisveitingar geti ekki verið nauðsynlegar. Ég held að til sumra veiða eigi skilyrðislaust að krefjast leyfis og jafnvel hæfnisprófs, þar á ég t.d. við hreindýraveiðar. Mér finnst ekki gilda alveg það sama um allar veiðar og ég vil biðja menn að hugleiða hvort ekki sé tiltækilegt að skilja þarna eitthvað á milli.
    Ég er út af fyrir sig sammála 8. gr. frv. en það leiðir hugann að netlögum og rétti landeigenda. Nú er kannski ástæða til að vekja athygli á því að nýjasti gróðavegur í sjávarútvegi eru ígulkeraveiðar og væntanlega eru ígulkerin að mestu leyti innan netlaga. Þetta mál er kannski ekki að öllu leyti skylt þessu frv. en ég hef orð á þessu vegna þess að þarna geta hæglega orðið verulegir árekstrar milli veiðimanna, þ.e. þeirra sem stunda ígulkeraveiðar og landeigenda. Á þessu þyrfti að finna skynsamlega lausn.
    Ég er alveg ákveðinn stuðningsmaður siðsamlegra veiða og tel að í 9. gr. sé ýmislegt talið upp og bannað sem er algerlega forkastanlegt. Ég nefni eitur- og svefnlyf. Ég ætla ekki að fara að telja það upp. Ég get þó um sjötta liðinn þar sem bann er við snörum og snöruflekum. Það vill svo til að við Drangey á Skagafirði hefur í gegnum aldirnar verið veitt á snörufleka. Ég er ekki viss um að það sé verri eða ómannúðlegri veiðiaðferð en ýmislegt annað. Menn gerðu þetta vegna þess að þeir höfðu ekki önnur haldbetri tæki til veiðanna en mér er sagt af mönnum sem þekkja þetta mál að eftir að flekaveiðarnar við Drangey voru bannaðar hafi fuglinum stórfjölgað þannig að nú sé orðið allt of mikið af fuglinum. Og fortakslaust bann á flekaveiðum kann að orka tvímælis vegna þess að þarna var ákveðið samræmi í umgengni mannsins við náttúruna. Síðan breyttist það og skapaðist ósamræmi því að allur þessi ónýtti Drangeyjarfugl þarf náttúrlega mikið að éta og er í samkeppni við aðrar lífverur í Skagafirði.
    Þetta er nú ekki stórt atriði. Hins vegar sýnist mér að í þessu frv. felist gerbylting á refaveiðum þannig að ýmsar þær veiðiaðferðir sem tíðkaðar hafa verið við refi eru nú bannaðar, þ.e. t.d. að nota lifandi dýr sem bandingja, segulbandstæki til þess að gagga tófu í færi og jafnvel að svæla greni. Nú er ég ekki veiðimaður en mér er kunnugt um að öllum þessum aðferðum hefur verið beitt við grenjavinnslu. Menn geta svo deilt um hvort þetta eru mannúðlegar aðferðir eða ekki, en ef tófu fjölgar um of og henni er ekki haldið niðri með veiðum, þá getur hún orðið töluvert mikil plága. Ég hef reynslu af því að þegar dýr fara að bíta, þá eru þau ekkert mannúðleg í sinni umgengni við sauðfé eða sína bráð þegar þau eru á annað borð grimm og blóðþyrst.

    Í þessu frv. er refurinn friðaður í stórum dráttum að mér sýnist. Ég tel að það væri mikill sjónarsviptir ef refnum yrði útrýmt á Íslandi og ég er alls ekki að hvetja til þess en ég vitna til skýringar við 12. gr.:     ,,Samkvæmt 1. mgr. er óheimilt að eyðileggja greni. Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi má líta á eyðileggingu grenja sem náttúruspjöll, enda hafa mörg þeirra sennilega verið í notkun öldum eða jafnvel árþúsundum saman.`` --- Þetta er nokkuð djúpt í árinni tekið. --- ,,Í öðru lagi gerir það grenjaskyttum erfitt um vik ef þekkt greni eru eyðilögð því að þá aukast líkur á að tófan notfæri sér óþekkt greni. Truflun af öllu tagi, sérstaklega með hundum, er einnig á allan hátt óæskileg og því er bann við truflun á grenjum sérstaklega áréttað hér. Þá er gert ráð fyrir að stjórnir sveitarfélaga haldi skrár um þekkt greni líkt og núgildandi lög um eyðingu refa og minka, nr. 52/1957, mæla fyrir um.``
    Því sem ég hef hingað til lesið er ég algerlega sammála. En síðan segir:
    ,,Samkvæmt 2. mgr. er það grundvallarregla að refir skuli friðaðir á grenjatíma þótt friðun hafi verið aflétt.``
    Mér finnst það nokkuð stórt spor og orki tvímælis að gera það að grundvallarreglu að friða ref á grenjatíma. Ég les ekki meira úr þessum skýringum en hér er frv. um friðun refa í stórum dráttum. Ég tel að menn verði að fá að bera hönd fyrir höfuð sér og halda refastofninum í ákveðinni stærð, ekki hafa refastofninn mjög stóran því að þá fer fyrir honum eins og hreindýrunum að hann hefur ekki nóg að éta og deyr úr hungri, a.m.k. þar sem hann er ekki við sjávarsíðuna og getur lifað á sjávarfangi.
    Varðandi hreindýrin þá ætla ég ekki að blanda mér í þá umræðu en ég hygg nú samt að hreindýraveiðar séu þær veiðar sem kannski eru vandasamastar og kannski, án þess að ég þekki það nú nægilega vel af persónulegri reynslu, stundaðar af nokkru gáleysi í einhverjum tilfellum.
    Ég sakna þess reyndar í þessu frv. að þar er hvergi getið um áfengismál. Ég stend í þeirri meiningu að e.t.v. væri ástæða til að banna mönnum að vera fullir við veiðar. Ég vona að það sé ekki algengt að menn séu mjög við skál við veiðiskap en þó hygg ég að þess muni finnast dæmi og það finnst mér fast að því refsivert.
    Jafnframt væri e.t.v. ástæða til þess að setja skýrari ákvæði varðandi gæsaveiðar til verndar búpeningi manna. Gæsaveiðar eru mér ógeðfelldar á mínu landi a.m.k. út af búpeningi. Ekki fyrir það að ég geti ekki unnað veiðimönnum að veiða gæsina heldur hitt að veiðin fer fram í ljósaskiptunum fyrst og fremst og þá getur búpeningi stafað hætta af þegar menn eru farnir að skjóta út í myrkið.
    Ég bið hv. nefndarmenn að hugleiða þetta í góðu. Jafnframt rek ég augun í það að hér á að fara að nema úr gildi ákvæði Jónsbókar er fjalla um seli, rostunga og hvítabirni og það finnst mér ákaflega mikil afturför. Ég held að við eigum að halda í þessi fáu fornu lagaákvæði sem enn eru í gildi á Íslandi þar sem við getum. Ég tel prýði í lagasafninu að hafa þar ákvæði Jónsbókar í gildi um seli, rostunga og hvítabirni.
    Annað var það ekki, frú forseti.