Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 15:26:08 (6208)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Hann svaraði kannski ekki alveg öllu, en það skiptir mig ekki máli. Við getum komið inn á það síðar eins og að skrá þurfi öll dýr sem maður hugsanlega veiðir á veiðikorti. Ég held að það hafi ekki komi fram en það er smáatriði. En ég fagna því að það er þá í reglugerð bann við notkun á sjálfvirkum skotvopnum. Þótt við Stefán heitinn næðum því ekki fram hér á 8. áratugnum þá hafa menn séð að sér síðar, enda hélt ég að það væri svo. Staðreyndin er hins vegar önnur og ég hugsa að þau séu fullt eins algeng og tveggja skota og það er bókstaflega ekkert minnsta eftirlit með þeim. Hver maður, sem hefur byssuleyfi, getur að því er ég best veit gengið inn í verslun og keypt þau í dag. Ég hef sjálfur gengið undir svona heiðursmannapróf við nám í Bandaríkjunum en því miður óttast ég að það sé ekki á það treystandi í þessum efnum. Ég nefndi alveg sérstaklega líka þetta með vélknúin ökutæki sem óheimilt yrði að aka utan merktra slóða. Ég á erfitt með að sjá hvernig því verður fylgt eftir og þetta kom ekki fram hjá hæstv. ráðherra. Ég held að það sé afar mikilvægt að setja inn heimild til að nota einhvern hluta af þeim tekjum sem af þessu fást til þess að hafa eftirlit með ýmsum ágætum ákvæðum þessa frv.