Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 15:29:00 (6210)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Mig langar í tilefni af orðum hæstv. umhvrh. að leggja áherslu á og líka til að forðast allan misskilning þá á hæstv. umhvrh. eins og ég sagði í ræðu minni fyrr mikinn heiður skilinn fyrir framgöngu hans varðandi setningu reglugerðar um nytjar á hreindýrum. Það sem ég var aftur á móti að leggja áherslu á og ræða var að skv. 14. gr. er umhvrh. heimilt að setja reglugerð sem er aldeilis allt öðruvísi, getur litið allt öðruvísi út en sú ágæta reglugerð sem núv. hæstv. umhvrh. hefur sett. Það verður að segja hæstv. umhvrh. til hróss að þegar hann kom að þessu máli var það í slíku uppnámi að það þurfti að grípa þar til hendi strax og honum tókst að ná um þetta viðkvæma mál mjög víðtækri samstöðu og sátt sem nú ríkir um veiðarnar. Það er nú svo að frv. kann að verða að lögum og persónur skipta um sæti ráðherrans. Þó að ég viti að hæstv. umhvrh. Eiður Guðnason sé farsæll í störfum sínum og muni sitja lengi í þessu embætti, þá er það svo vegna eðli málsins að einn tekur við af öðrum. Ég treysti hæstv. umhvrh., Eiði Guðnasyni, til þess að sjá um að verja þá sátt sem gildir nú á þessum vettvangi en skv. 14. gr., ef hún yrði óbreytt, er spurningin sú hvort reglugerð eigi eftir að líta dagsins ljós sem væri allt öðruvísi en sú reglugerð sem er núna. T.d. er í þeirri reglugerð, sem nú er við lýði, heimilað að landeigendur og ábúendur megi njóta arðs af veiði hreindýra. Að vísu er það sett í vald sveitarfélaga að ákveða um það, en ef ætti að taka þetta ákvæði 14. gr. frv. bókstaflega þá mætti hugsanlega ritskýra einhverjar setningar svo að það væri jafnvel óheimilt. Ef við ætluðum að ritskýra bókstaflega það sem stendur þá mætti ritskýra að það væri óheimilt. Ég veit að það er ekki skilningur hæstv. umhvrh. en ef við lesum textann þá má fá þá merkingu út fyrir þann sem ætlaði sér að gera það.
    Ég ætlaði að leggja áherslu á þetta hér og einnig það sem ég sagði áður að töluverð þyngsli eru víða fyrir landeigendur að umbera hreindýrin. Þau valda skaða á girðingum, á túnum og ég nefni ekki á viðkvæmum gróðri landsins. Þetta þurfum við allt að hafa að leiðarljósi.
    Í öðru lagi vil ég nefna það sem hér hefur verið nefnt af nokkrum hv. þm. að þetta frv. sé eitt allsherjarleyfafargan og miðstýring. Það er nú svo að þess er getið mjög víða í frv. að ráðherra sé heimilt að setja reglugerðir til þess að kveða nánar á um framkvæmd laganna. Ég vil velta upp þeirri spurningu hvort það sé ekki einmitt mjög gott og eðlis málsins vegna nauðsynlegt. Er það skynsamlegt að rígbinda nákvæmlega í lög ákvæði um jafnviðkvæma hluti og hér eru til umfjöllunar og í öðru lagi, er skynsamlegt að njörva þetta svo niður að stjórnvaldið, framkvæmdarvaldið hafi ekki einhvern sveigjanleika til þess að stjórna veiðunum? Ég held nefnilega að lögin þurfi að taka mið af margbreytileika náttúrunnar, fjölbreytileika náttúrunnar og alls þess sem þar er að gerast. Ég get nefnt sem dæmi veiðar á minkum. Þá er það mjög mikilvægt að hægt verði að beita sveigjanlegum aðferðum og að ráðherra geti gripið til sérstakra ráðstafana á sérstökum svæðum ef svo ber undir og hann hafi til þess töluvert mikið svigrúm. Ég held að þetta mál sé þannig vaxið að það geri kröfu til þess að stjórnvaldið geti beitt og hafi svigrúm til að beita sveigjanlegum aðferðum í ljósi eðlis náttúrunnar.