Neyðarráðstafanir gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 15:36:13 (6211)

     Flm. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Um þessar mundir snúast umræður í þjóðfélaginu mest um alvarlegar afkomuhorfur einstaklinga og atvinnuvega. Hver fréttin af annarri dynur yfir um afleiðingar af kreppustefnu ríkisstjórnarinnar í atvinnu- og efnahagsmálum. Í hverri viku berast uggvænlegar fréttir af helstríði stórra fyrirtækja sem oftast endar með stöðvun þeirra og gjaldþroti. Afleiðingin er vítahringur sívaxandi atvinnuleysis og minnkandi þjóðarframleiðslu sem stefnir afkomu heimila, ríkis og þjóðarbúsins í heild í voða.
    En þrátt fyrir þessi yfirþyrmandi tíðindi berast öðru hverju svo válegar fréttir að þær grípa fólk enn þá sterkari tökum, í augnablikinu a.m.k. Þar á ég við þau ömurlegu örlög sem þjóðfélagið hefur búið sívaxandi fjölda barna og unglinga. Því heyrist að vísu stundum haldið fram að hver og einn eigi að bera ábyrgð á sjálfum sér, óþarfi sé að hugsa um náungann. En hljóta samt sem áður ekki allir að vera sammála um það að barnið sem fæðist í þennan heim beri litla ábyrgð á því umhverfi sem því hefur þá verið skapað? Þar eru það foreldrarnir og heimili þeirra sem skapa aðstæðurnar. En engum dylst að heimilin draga í ríkara mæli en nokkru sinni fyrr dám af því ástandi og viðhorfum sem ríkja í þjóðfélaginu í heild, enda veggir heimilisins ekki nema takmörkuð vörn. Þegar þannig er komið er það samfélag fólksins á hverjum stað og forráðamenn þar og í þjóðfélaginu í heild sem bera ábyrgðina að miklu leyti. Um ástandið hjá börnunum tala staðreyndirnar sínu máli. Sívaxandi fjöldi barna hefur ekki aðeins beðið meira og minna tjón á sálu sinni þegar kemur inn í grunnskólann, heldur jafnvel einnig á líkama sínum vegna vannæringar og vanhirðu. Þess er ekki að vænta að skólinn geti bætt þar úr þrátt fyrir góðan vilja og viðleitni kennara, enda ríkisvaldið sífellt að gera meiri kröfur til kennaranna um aukin afköst og framleiðni við skólastarfið og afleiðingarnar blasa við.
    Frásögn af píslargöngu eins þessara ógæfusömu barna birtist í Morgunblaðinu um síðustu helgi. Eftir skilnað foreldra og upplausn heimilis byrjaði áfengisneysla um 12 ára aldur en hún er að mati þeirra sem til þekkja nær undantekningarlaust undanfari annarrar vímuefnaneyslu sem að þessu sinni fylgdi í kjölfarið.
    Í greinargerð þáltill. sem ég mæli hér fyrir er m.a. vitnað í bækling sem foreldrasamtökin Vímulaus æska sendu frá sér á sl. hausti og ber bæklingurinn nafnið ,,Lítil hjálparhandbók``. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Neysla áfengis og annarra vímuefna eru ekki tvö aðskilin mál. Neysla áfengis er alltaf forsenda neyslu annarra vímuefna.``
    En forráðamenn í þjóðfélaginu verða að skilja að það leysir ekki vanda þeirra sem illa eru farnir af þessum sökum eða réttara sagt, það kemur ekki í veg fyrir að ótalinn fjöldi lendi í þessum vandræðum að byggja sífellt fleiri hæli og meðferðarstofnanir eins og gjarnan er talið úrræði þeirra þegar illa er komið. Of sjaldan heyrist tekið undir það að þjóðin þurfi að sameinast um að draga úr hættunni á því að börn og unglingar hljóti þessi örlög með því að fara í krossferð gegn sívaxandi áfengisneyslu. Ég tel að það stafi fyrst og fremst af of mikilli eigingirni þeirra sem neyta áfengis í litlum eða miklum mæli til að fá að halda áfram í friði sinni eigin áfengisneyslu, en ekki það að þeir vilji ekki bjarga þessum börnum sem

reynslan sýnir að eiga voðann vísan vegna þess að alls staðar í kringum okkur sjá þau fordæmið sem beinir þeim á þessa hálu braut.
    Í Morgunblaðinu fyrir skömmu birtist grein eftir Súsönnu Svavarsdóttur sem bar fyrirsögnina ,,Svik, vantraust og reiði``. Þar var verið að fjalla um afleiðingar áfengisneyslunnar fyrir áfengissjúklinga og aðstandendur þeirra og andrúmsloftinu sem ríkir þar var lýst með þessari fyrirsögn. Í greininni segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Smám saman hættir fjölskyldan að treysta orðum alkóhólistans. Börn sem alast upp við aðstæður sem þessar læra aldrei að treysta öðru fólki, ekki einu sinni sínum nánustu, enda hafa svik þeirra verið sárust. Þau læra óheiðarleika, þau læra að það sem aflaga fer sé öðrum að kenna, þau læra að vera fórnarlamb aðstæðna og gera sér enga grein fyrir að þau beri ábyrgð á eigin lífi.``
    Sú spurning hlýtur að vera áleitin, hvert það þjóðfélag stefnir sem býr sívaxandi fjölda barna sinna þetta umhverfi. Sjálfsagt er það tilviljun að fyrirsögn greinar sem er við hliðina á þessari fyrrnefndu grein Súsönnu Svavarsdóttur endar á orðinu ,,helstefna``. En forráðamenn í þjóðfélaginu verða að skilja að stóra vandamálið er þjóðfélagið sem við höfum byggt upp og skapar því miður þessar hættur sem þessir unglingar verða að alast upp við. Það er því augljós ástæðan fyrir því að ég hef ásamt fjórum öðrum hv. þm. flutt eftirfarandi tillögu til þál. um neyðarráðstafanir gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa nú þegar til neyðarráðstafana til að vinna gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna í því skyni að draga úr þeirri bylgju ofbeldis, innbrota, nauðgana og annarra afbrota sem nú hvolfist yfir þjóðfélagið og veldur ólýsanlegum þjáningum og neyð. Leitað verði eftir því að koma á víðtæku samstarfi ríkisvalds, sveitarstjórna, lögreglu, skóla, kirkju, foreldrasamtaka og annarra aðila sem vilja vinna gegn þessum mikla vágesti með breyttu viðhorfi til vímuefnaneyslu.``
    Þessi málefni sem þáltill. varðar snertir mörg ráðuneyti og e.t.v. er það ástæðan að einhverju leyti fyrir of miklu aðgerðaleysi á þessum sviðum. En ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu og allshn. og vænti þess að hún fái þar jákvæða afgreiðslu og ríkisstjórnin muni svo taka hana alvarlega og vinna að því að gera allar þær ráðstafanir sem hægt er í þessu mikilvæga máli.