Meðferð og eftirlit sjávarafurða

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 15:51:37 (6214)

     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér nú hljóðs vegna þess að ég tel að þarna sé Rússafiskurinn á ferðinni, það sé ástæða til að vekja athygli á því að menn séu að opna með þessu möguleikann til þess að slaka á kröfunni um það að hráefnið sem kemur að land hér verði aðgreint frá því hráefni sem flutt er að af öðrum miðum og ég tel að það sé í því fólgin ákveðin glötunarleið. Við eigum að halda þessu hráefni a.m.k. aðskildu frá okkar hráefni og krefjast þess að þeir sem kaupa fisk af öðrum miðum aðgreini hann frá Íslandsfiski. Ég held reyndar að öll þessi mál þurfi að skoða upp á nýtt, það þurfi að gera miklu meiri kröfur til þess að fiskur sé flokkaður og aðgreindur líka í gæðaflokka betur en gert hefur verið. Það er mikið víxlspor finnst mér þegar við sjáum núna fram á að það er mikið verið að flytja fisk að landinu af öðrum miðum, fisk sem erlendir sjómenn veiða og fara allt öðruvísi með en gert er hér, fisk sem við eigum ekki að selja sem íslenskan fisk heldur láta það koma mjög skýrt fram hvaðan er og reyna að gera úr þá bestu vöru sem hægt er, en við megum ekki um leið eyðileggja ímynd íslensks fisks með því að fylgja þessum málum ekki nægilega vel eftir. Nú veit ég það ósköp vel að hæstv. sjútvrh. hefur tæki til þess að fylgja því eftir og ég vona satt að segja að hann geri það þrátt fyrir að þessar heimildir verði rýmkaðar. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki hægt að fylgja þessum reglum út í æsar. Það er ekki hægt að aðgreina t.d. loðnu úr erlendu skipi og íslenskum skipum eða afurðir af þeim fiski en það er hægt og það er mjög nauðsynlegt að greina á milli þess fisks sem ég var tala um hér áðan og þess fisks sem kemur að landi af íslenskum skipum úr íslenskri landhelgi.
    Þetta vildi ég láta koma fram, hæstv. forseti, og ég vonast til þess að í sjútvn. ræði menn þetta mál í þessu ljósi.