Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 16:01:13 (6216)

     Flm. (Guðjón Guðmundsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um hvalveiðar. Flm. ásamt mér er hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason. Till. sem er á þskj. 477 hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að hvalveiðar geti hafist næsta sumar á grundvelli rannsókna Hafrannsóknastofnunar á stærðum og veiðiþoli hvalastofna.``
    Hvalveiðar hafa ekki verið stundaðar af Íslendingum síðan sumarið 1985. Bann Alþjóðahvalveiðiráðsins við hvalveiði tók gildi árið 1986 og gerðu Íslendingar þau reginmistök að mótmæla ekki banninu en aðildarþjóðum hvalveiðiráðsins er heimilt að mótmæla ákvörðunum ráðsins innan 90 daga frá ákvarðanatöku sjái þau sér ekki fært að fara að viðkomandi samþykkt eða telji hana ekki samrýmast vilja sínum. Þennan rétt færðu Norðmenn, Japanar og Sovétmenn sér í nyt og voru þar með óbundnir af samþykkt ráðsins. Íslensk stjórnvöld lýstu yfir vilja sínum til að nýta sér réttinn til mótmæla með fyrirvara um afstöðu Alþingis til málsins. Á Alþingi skiptust menn í tvo jafnstóra hópa. Annars vegar voru þeir sem vildu gæta hagsmuna Íslands sem strandríkis, er byggði afkomu sína á aðdrætti úr sjó, og hagsmunum ábatasamrar atvinnugreinar og þess fólks sem byggði atvinnu sína á veiðunum sem stundaðar höfðu verið um áratuga skeið án sýnilegrar rányrkju. Hins vegar voru svo þeir sem óttuðust skýlausa kröfu ýmissa fiskkaupenda í Bandaríkjunum, erlendra og innlendra þrýstihópa er hafa friðun hvala að markmiði og opinberra erlendra aðila um að mótmælum við stöðvun veiða yrði ekki hreyft. Fór svo að samþykkt var með eins atkvæðis meiri hluta að mótmæla ekki ákvörðun hvalveiðiráðsins. Þar með sá ríkisstjórn Íslands sér

ekki fært að bera fram mótmæli og féllst um leið á fyrirhugaða veiðistöðvun sem tók gildi árið 1986.
    Ég tel að þessi ákvörðun Alþingis hafi verið mikil mistök og geri okkur erfiðara að hefja hvalveiðar að nýju en t.d. Norðmönnum sem nú hafa aftur hafið hrefnuveiðar og eru til þess í fullum rétti vegna þess að þeir mótmæltu hvalveiðibanninu. Í viðauka við samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins segir:
    ,,Hvalveiðar í atvinnuskyni skulu leyfðar á hvalastofnum sem eru í jafnvægi og þær skulu stundaðar í samræmi við tillögur vísindanefndarinnar.``
    Stefna og starfshættir hvalveiðiráðsins hafa verið með þeim hætti á undanförnum árum að þessi markmið hafa verið gjörsamlega sniðgengin. Hvalveiðiráðið hefur á undanförnum árum orðið að eins konar hvalfriðunarstofnun.
    Þetta leiddi til þess að Ísland gekk á síðasta ári úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Í 65. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að segir m.a.:
    ,,Ríki skulu starfa saman með verndun sjávarspendýra í huga og skulu hvað hvali snertir einkum starfa á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana að verndun og stjórnun þeirra og rannsóknum á þeim.``
    Síðasta haust voru stofnuð samtökin NAMMCO, Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðið sem eru svæðisbundin samtök um verndun og stjórnun nýtingar hvala- og selastofna, en að þeim standa auk Íslands Noregur, Færeyjar og Grænland. Á þessum vettvangi verðum við að vinna að því að hvalveiðar hefjist að nýju og stjórnun skynsamlegrar nýtingar hvalastofna í Norður-Atlantshafi.
    Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Rio de Janeiro sl. sumar var samþykkt að reglur um sjálfbæra nýtingu skuli gilda bæði um fiskstofna og sjávarspendýr með þeim takmörkunum að ekki verði veitt úr þeim stofnum sem taldir eru í hugsanlegri útrýmingarhættu.
    Eins og ég hef hér nefnt er gert ráð fyrir nýtingu hvalastofna í samþykktum Alþjóðahvalveiðiráðsins, hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og samþykktum ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun. Við Íslendingar leggjum upp úr því að halda alþjóðlegar samþykktir sem við höfum staðið að, en við verðum einnig að gera þær kröfur að aðrar þjóðir geri slíkt hið sama. Auðvitað er ekki hægt að sætta sig við það að liggja undir hótunum frá öðrum þjóðum sem einnig standa að þessum sömu alþjóðlegu samþykktum, hótunum um áróðursstríð og viðskiptaþvinganir ef við leyfum okkur að hefja hvalveiðar að nýju sem við höfum þó skýlausan rétt til. Ég tel að við getum ekki og megum ekki láta undan slíkum hótunum ef við ætlum að standa undir því að vera sjálfstæð þjóð.
    Ég minni á það að þegar við færðum út fiskveiðilögsöguna vorum við beittir viðskiptaþvingunum og ýmiss konar hótunum. Hefðum við hopað er óvíst að fiskveiðilögsaga okkar væri 200 mílur í dag. Íslendingar brutu þessar þvinganir á bak aftur með einurð og festu og fengu með því aðrar þjóðir til að viðurkenna óskoraðan rétt okkar yfir fiskveiðilögsögunni.
    Við vitum að andstaða gegn hvalveiðum er talsverð í Bandaríkjunum og sumum ríkjum Evrópu. Sumir andstæðingar veiðanna svífast einskis í áróðri sínum og kynda mjög undir andstöðu gegn veiðunum, oft á tíðum með hreinum blekkingum eins og glöggt kemur fram í hinni ágætu kvikmynd Magnúsar Guðmundssonar, ,,Lífsbjörg í norðurhöfum``, sem vakið hefur mikla athygli víða um lönd. Þess vegna er öflugt kynningarstarf nauðsynlegt. Þar þurfa þjóðirnar sem standa að NAMMCO að hafa samvinnu. Við þurfum að eyða þeim misskilningi að verið sé að útrýma hvalastofnum. Staðreyndin er að engar hvalategundir sem veiddar hafa verið við strendur Íslands undanfarna áratugi eru í útrýmingarhættu. Það er viðurkennt af öllum sem til þekkja að Íslendingar hafa verið í fararbroddi hvað varðar rannsóknir og skynsamlega nýtingu hvalastofna.
    Meðan Íslendingar stunduðu hvalveiðar var ávallt farið að ávörðunum Alþjóðahvalveiðiráðsins um takmörkun veiða og verndun friðaðra hvalategunda. Auk þess var stuðst við ýmsar reglur um veiðarnar sem Íslendingum var gert að fylgja, svo sem um lágmarksstærð veiddra dýra og friðun mjólkandi hvalkúa. Síðasta áratuginn sem veiðarnar voru stundaðar í atvinnuskyni var fulltrúi Alþjóðahvalveiðiráðsins til eftirlits meðan á veiðunum stóð til að tryggja að farið væri að settum reglum en þessu eftirliti var komið á með samkomulagi við norsk, kanadísk og spænsk stjórnvöld. Þá hefur Hafrannsóknastofnun um langt árabil stundað umfangsmiklar hvalarannsóknir sem beindust einkum að því meðan hvalveiðar voru stundaðar að auka þekkingu á ástandi og veiðiþoli þeirra hvalastofna sem nýttir voru hér við land og áhrifum veiðanna á þá. Þessar rannsóknir voru m.a. unnar í samstarfi við erlenda rannsóknaraðila. Gerðar voru ítarlegar líffræðilegar athuganir á öllum lönduðum stórhvölum, framkvæmdar nákvæmar úttektir á sambandi afla og sóknar í hvalveiðunum og framkvæmdar umfangsmiklar hvalamerkingar og talningar.
    Árið 1980 skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til að taka á móti og útvega viðurkenndum erlendum vísindamönnum aðstöðu til rannsókna á ýmsum þáttum líffræði stórhvela sem þeir höfðu sérþekkingu á. Með þessari samþykkt og framkvæmd hennar næstu árin skapaðist vísir að rannsóknamiðstöð hér á landi sem gaf vísindamönnum víða að úr heiminum tækifæri til að stunda athuganir sem óvíða hefði verið unnt að framkvæma og komu yfir 20 erlendir aðilar hingað í þessum tilgangi á árunum 1980--1984 og stunduðu rannsóknir sem ýmist höfðu beinan hagnýtan tilgang eða snerust um almenna þekkingu á líffræði hvala. Það hefur því verið staðið mjög vel að hvalarannsóknum og nýtingu hvalastofna hér við land. Þessar staðreyndir þurfum við að kynna ráðamönnum í þeim löndum þar sem andstaðan við hvalveiðar er mest og ekki síður fyrir fjölmiðlum í sömu löndum.
    Einnig þarf að minna á þá staðreynd að a.m.k. 20% jarðarbúa búa við fátækt og hungur. Jarðarbúum fjölgar jafnt og þétt og þeir eru orðnir hálfur sjötti milljarður og því er knýjandi nauðsyn að auka stórlega matvælaframleiðslu í veröldinni og óverjandi að nýta ekki hvalastofna í þeim tilgangi. Það er hárrétt sem hæstv. umhvrh. sagði í blaðagrein nýlega að hvalastofnunum stafar ekki hætta af takmörkuðum veiðum þar sem farið er fram með gát, heldur miklu fremur af þrávirkum lífrænum efnum sem í höfin berast frá ýmiss konar atvinnustarfsemi í þeim löndum þar sem andstæðingar hvalveiða hafa hæst.
    Samfara ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun hvalveiða í atvinnuskyni var ákveðið að efna til heildarúttektar á ástandi hvalastofna heims sem ljúka átti árið 1990. Í samræmi við þetta ákváðu íslensk stjórnvöld að efna til hvalveiða í vísindaskyni árin 1986--1989 samkvæmt áætlun Hafrannsóknastofnunar um víðtækar hvalarannsóknir. Rannsóknir þessar miðuðust við að efla þekkingu á ástandi og veiðiþoli hvalastofna við Ísland og að kanna þátt stórra og smárra hvala í lífkerfi hafsvæðisins hér við land. Þær fólust m.a. í skipulegri talningu hvala árin 1986, 1987 og 1989. Samstarf var við aðrar þjóðir við Norður-Atlantshaf í tveimur stórum leiðöngrum sem tóku til hafsvæðisins frá Vestur-Grænlandi að ströndum Noregs og frá Svalbarða að ströndum Spánar þar sem mest voru 15 skip og tvær flugvélar samtímis við talningu.
    Af hálfu Íslands tóku þrjú skip og ein flugvél þátt í verkinu sumarið 1987 og fjögur skip sumarið 1989. Við talninguna fengust miklar upplýsingar um útbreiðslu hvala og stærð hvalastofna á rannsóknasvæðinu, ekki síst hvað viðkemur hvalastofnum sem nýttir hafa verið hér við land á undanförnum áratugum. Þessar rannsóknir leiddu m.a. í ljós eftirfarandi niðurstöður: Um 28 þús. hrefnur voru á Mið-Atlantshafssvæðinu, þar af tæpur helmingur á íslenska strandsvæðinu. 15.600 langreyðar voru á hafsvæðinu Austur-Grænland/Ísland/Jan Mayen, þar af um 8.900 langreyðar á svæðinu milli Austur-Grænlands og Íslands norðar 50. gráðu norður. 10.800 sandreyðar voru á leitarsvæði íslensku skipanna. Tæplega 2.000 hnúfubakar voru á íslenska strandsvæðinu. Vegna sérstakrar köfunarhegðunar búrhvals liggja ekki fyrir áreiðanlegir útreikningar á fjölda dýra. Eftir talningar 1987 og 1989 telja sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar vafalítið að búrhvalir skipti nokkrum þúsundum á íslenska talningarsvæðinu.
    Af þessari upptalningu má sjá að mikil hvalamergð er í hafinu við Ísland og hefur þeim vafalaust fjölgað talsvert á þeim árum sem liðin eru síðan talningin var gerð. Það er því deginum ljósara að Íslendingum er ekki bara óhætt heldur nauðsynlegt að hefja hvalveiðar að nýju til að raska ekki frekar en orðið er lífkerfi hafsins. Til langtíma séð hlýtur offjölgun hvala að bitna á fiskstofnunum og valda samdrætti í fiskveiðum, en talið er að árleg neysla þeirra nemi meiru í tonnum talið en heildarársafli Íslendinga.
    En hvalveiðar eru líka mikilvægar hvað varðar verðmæti og ekki síður í atvinnuskyni. Hvort tveggja skiptir okkur Íslendinga miklu, ekki síst á tímum minnkandi þjóðartekna og mikils atvinnuleysis. Framleiðsluverðmæti hvalaafurða síðustu fimm árin sem veiðarnar voru stundaðar í atvinnuskyni voru að meðaltali nokkuð á 2. milljarð kr. á ári miðað við verðlag í dag. Hlutfall hvalaafurða var þá á bilinu 1,5--2,5% af útflutningsverðmæti sjávarafurða. Þá var aflaverðmæti hrefnuveiðibáta nokkuð á 2. hundrað millj. kr.
    Árið 1985, sem var síðasta árið sem hvalveiðar voru stundaðar í atvinnuskyni, störfuðu um 250 manns hjá Hval hf. á hvalvertíðinni og margir þeirra allt árið. Hér var um að ræða áhafnir hvalveiðiskipanna, starfsmenn í hvalstöðinni í Hvalfirði og starfsmenn frystihúss Hvals hf. í Hafnarfirði. Þá eru ótaldir þeir sem stunduðu veiðar og vinnslu á hrefnu. Þarna er því um að ræða störf fyrir nokkuð á fjórða hundrað manns frá vori til hausts eða um 150 ársverk. Eins og atvinnuástandið er um þessar mundir getum við ekki horft á þessi störf fara forgörðum. Á þingi Alþýðusambands Íslands sem haldið var á Akureyri í nóvember 1992 var samþykkt svohljóðandi ályktun, með leyfi forseta:
    ,,37. þing ASÍ skorar á íslensk stjórnvöld að beita sér nú í vetur fyrir því að hafnar verði hvalveiðar og vinnsla á afurðum á Íslandi á næstu vertíð að sumri.
    Í hvalstöðinni í Hvalfirði og reyndar víðar, þar sem t.d. hrefnuveiðar hafa verið stundaðar, leynast tugir atvinnutækifæra fyrir íslenskt verkafólk að ógleymdum þeim útflutningstekjum sem þessar afurðir geta skilað til ríkis og sveitarfélaga. Að láta slík tækifæri liggja milli hluta er hreint forkastanlegt og því skorar þingið á alla sem geta beitt sér í málinu að taka undir og knýja það fram.``
    Áður höfðu mörg stór samtök á vinnumarkaðnum samþykkt ályktanir þar sem eindregið er hvatt til þess að hvalveiðar verði hafnar að nýju og má þar t.d. nefna Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Verkamannasamband Íslands, Landssamband ísl. útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda og fiskiþing. Ég tel að eindregnar ályktanir þessara fjölmennu samtaka lýsi best þeim almenna stuðningi sem er við það meðal þjóðarinnar að hvalveiðar hefjist á ný. Í stefnu- og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni segir, með leyfi forseta:
    ,,Langvarandi friðun sjávarspendýra mun raska jafnvægi í lífríki hafsins og valda samdrætti í fiskveiðum. Íslensk stjórnvöld telja að fiskveiðiþjóðir þurfi að snúa vörn í sókn og vinna sameiginlega gegn stefnu sem leiðir til ofverndunar einstakra tegunda, enda er það stefna ríkisstjórnarinnar að nýta beri sjávarspendýr undir vísindalegu eftirliti á sama hátt og fiskstofnar eru nýttir.``
    Ályktanir þeirra fjölmennu samtaka á vinnumarkaðnum sem ég gat um og samþykkt þeirrar þáltill. sem ég mæli hér fyrir munu tvímælalaust styrkja hæstv. ríkisstjórn í því að snúa vörn í sókn og hrinda í framkvæmd stefnu sinni um nýtingu sjávarspendýra.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að þessari till. verði að lokinni fyrri umræðu vísað til síðari umræðu og hv. sjútvn.