Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 16:30:48 (6219)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir nánast allt það sem hv. 3. þm. Suðurl. sagði í ræðu sinni en vil aðeins nefna eitt sem mér fannst örla á í hans máli og það var þegar hann talaði um að við gætum hugsanlega átt samleið með Greenpeace í sumu af því sem þeir væru að gera. Ég vara mjög við því að við séum yfir höfuð að leggja lag okkar við samtök af þessu taginu sem hafa orðið ber að því í svo stóru máli eins og hvalveiðimálinu að rugla vísvitandi saman staðreyndum, ljúga að fólki, fara frjálslega með upplýsingar og fleira af því taginu. Því miður bendir ýmislegt til þess að í sumu af því sem þeir eru að fjalla um á öðrum vettvang fari þeir nákvæmlega þannig með staðreyndir sem fyrir þá eru lagðar. Þeir hafa orðið berir að því og uppvísir að því að leika sér að því að nota upplýsingar sem þeir fá, slíta þær úr öllu vísindalegu samhengi en klæða þær hins vegar í gervivísindabúning og segja: Þetta eru staðreyndir málsins. Menn sem þannig vinna eru auðvitað mjög hættulegir í samstarfi og ég held að þrátt fyrir að hægt sé að finna, ef vel er leitað, eitthvað jákvætt í fari þessara samtaka, þá sé það þannig með þessi samtök að eftir að þau hafa unnið með þessum hætti sé það okkar málstað hættulegt að vera nokkuð að leggja okkar lag við þau og þess vegna eigum við einfaldlega að slást fyrir okkar góða málstað í umhverfismálum án þess að hnýta okkur aftan í þessi vafasömu samtök sem Greenpeace eru.