Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 16:32:34 (6220)

     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Til að taka af öll tvímæli, þá er það ekki mín skoðun að við eigum að ganga til liðs við Greenpeace á neinn formlegan hátt. En ég sagði að á þeim tíma sem þessi barátta stóð sem hæst og þróunin gekk hraðast fyrir sig var Greenpeace reyndar aðeins hluti af fjölmörgum öðrum alþjóðlegum samtökum sem tóku tak á ýmsum sviðum umhverfismála og náttúruverndarmála og ég held að það hafi verið á þeim tíma órökrétt að afgreiða það allt undir einn hatt. Það er hins vegar jafnljóst að fjáröflun þessara samtaka byggðist í rauninni á fölskum forsendum, sérstaklega með tilliti til þess að peningaausturinn inn í þessi samtök kom í gegnum sérstaklega hvalveiði- og selveiðiþættina. Þar var fjárstreymið inn í starfsemina sem síðan var veitt til annarra hluta einnig. Þar var hægt að spila á tilfinningar gagnvart dýrum og breyta í rauninni staðreyndum varðandi almennar veiðar.
    Ég hygg að það hafi ekki verið klókt á þeim tíma að gera þetta. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og Greenpeace-samtökin hafa orðið ber að því, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, að stunda pretti og svik á margan hátt til þess fyrst og fremst að knýja fram ákveðnar áherslur þar sem tilgangurinn hefur helgað meðalið alveg sama hversu óprúttnar aðferðir hafa verið notaðar. Við eigum auðvitað ekkert að blanda okkur inn í slíkt. Við getum samt sem áður viðurkennt það sem eru rök fyrir í náttúruvernd en fyrst og fremst eigum við að hafa sjálfstæða og markvissa stefnu í þessu sjálf.