Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 16:34:56 (6221)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég finn að sjónarmið okkar hv. 3. þm. Suðurl. eru mjög að nálgast í þessu máli og það er vel eins og jafnan. Það ber náttúrlega að árétta það sérstaklega í þessu sambandi og sýnir þann tvískinnungshátt og hræsni sem alltaf kemur fram í máli þessara Greenpeace-manna að þessir aðilar sem voru hér að dunda sér við það fyrir nokkrum árum að reyna að sleikja sig upp við okkur Íslendinga vegna þess að við erum mjög framarlega í flokki þeirra sem vilja fara gætilega í öllum umhverfismálum og komu til landsins og töluðu við ýmsa frammámenn og létu sem þeir væru okkar raunverulegu náttúrulegu bandamenn eru núna allt í einu komnir úr felum og farnir að tala með þeim hætti að það er mjög hættulegt fyrir okkur Íslendinga. Það er mjög hættulegt hreinlega fyrir okkar þjóðarbúskap hvernig þeir eru farnir að tala núna.
    Það nýjasta sem þessi öfgasamtök eru farin að beita sér fyrir er að vinna gegn okkar hagsmunum í fiskveiðum og benda á að fiskveiðar séu hættulegar viðgangi hvalastofna, séu ómannúðlegar og þar fram eftir götunum. Þess vegna tel ég ástæðu til að árétta það hversu hættulegt er að leggja lag sitt við þessi samtök sem í öðru orðinu þykjast vilja fylgja náttúruvernd og eigi þar með samleið með okkur sem forusturíki í náttúruverndarmálum og umhverfismálum en á hinn bóginn eru þessir aðilar að tala með þeim hætti að það er hreint tilræði við okkar efnahagslega sjálfstæði með hvaða hætti þeir ráðast t.d. að fiskveiðum og fiskneyslu sem þeir telja vera stórhættulega vegna þess að þær fiskveiðar sem eiga sér stað séu í sjálfu sér ógn við lífríki hafsins.
    En ég heyri að við hv. 3. þm. Suðurl. erum sammála um þá hættu sem að okkur steðjar af öfgasinnuðum náttúruverndarsamtökum.