Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 16:37:00 (6222)

     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. 3. þm. Vestf. að það þarf snerpu til þess að taka á í þessum hlutum. Ég tel til að mynda að Íslendingar eigi að bregðast við með ákveðnari hætti í þessum áróðursslag. Ef Paul Watson og aðrir pótintátar hefja á ný herför gegn Íslendingum eða nágrönnum okkar, þá eigum við Íslendingar auðvitað að stuðla að því að einkaaðilar eða aðrir á Íslandi fari til móts við þessa aðila, manni sig upp með tækjum og tólum og taki á móti í þessu efnum. Það er áróðursstríð sem mundi skila árangri og eftirtekt. Það þarf auðvitað að gera það vandlega og virðulega en það þarf að taka á því engu að síður. Ég hygg að það væri nálægt eðli margra Íslendinga að fara í slíkan víking.