Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 16:38:26 (6223)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. hreyfir hér mjög mikilvægu atvinnuspursmáli sem hvalveiðar eru. Eins og hann gat réttilega um störfuðu 250 manns við hvalveiðar, veiðar og vinnslu, allt til ársins 1986. Íslendingar höfðu verulegar tekjur af hvalveiðum og allt að 2% af heildarútflutningstekjum okkar komu einmitt þaðan.
    En það er ýmislegt sem hangir á þessari spýtu eins og hér hefur fram komið. Ég lagði fram svohljóðandi fsp. til hæstv. sjútvrh. 12. nóv. sl., með leyfi forseta:
    ,,Hvenær hyggst ríkisstjórnin heimila hvalveiðar að nýju?``
    Hæstv. sjútvrh. svaraði m.a.:
    ,,Markmið okkar í þessu er alveg skýrt. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Ég hef áður greint frá því að forgangsverkefni í þessu efni verður að hefja veiðar á hrefnu. Ég hef einnig áður lýst því að ég teldi æskilegt að slíkar veiðar gætu hafist á næsta ári, en eins og sakir standa get ég ekki fullyrt að ákvörðun verði tekin þannig að veiðar get hafist þegar á næsta ári. En ég ítreka það að ég tel æskilegt að allur okkar undirbúningur miðist við að svo geti orðið, en ekki er hægt að fullyrða hvort það tekst eins og mál standa í dag.``
    Þetta var 12. nóv. sl. Nú er kominn 18. mars og nú langar mig að spyrja hæstv. sjútvrh.: Hvernig gengur undirbúningur þessa máls? Ég tel víst að hann hafi átt við í þessu svari sínu að hann ætli að hefja nú þegar áróðursstríð á okkar mörkuðum sem er mjög mikilvægt eins og fram hefur komið. Ekki þýðir að láta sem svo að þessir hvalfriðunarmenn séu mjög mjúkir og það skipti engu máli þó að markaðir lokist um tíma. Ég vil geta þess t.d. að á Bandaríkjamarkaði eigum við núna 5--6 mánaða birgðir af fiski

þannig að það er mjög mikilvægt að ekki stöðvist sala á Bandaríkjamarkaði en það er líka mjög mikilvægt að við getum hafið þessar veiðar og það að við séum í stöðugu áróðursstríði eins og hér hefur komið fram. Þess vegna er mikilvægt að við þingmenn fáum úr því skorið hvernig þetta áróðursstríð gengur og hvort hæstv. ráðherra ætli að hefja hvalveiðar í sumar. Hvernig er verið að kynna málstað okkar á mörkuðunum? Það er spurningin.