Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 16:41:36 (6224)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka flm. þessarar tillögu fyrir að hreyfa þessu máli á hinu háa Alþingi. Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi fjalli um málið og álykti um stefnu okkar í þessu efni.
    Málið er vandmeðfarið svo sem reynslan hefur sýnt okkur. Hv. 1. flm. gerði ágætlega grein fyrir þróun þessara mála á undanförnum árum og ástæðulaust er að endurtaka þá sögu hér. Það var ljóst að við áttum ekki lengur samleið með meiri hluta þjóðanna í Alþjóðahvalveiðiráðinu sem árum saman hafði bundist samtökum um að brjóta samþykktir Alþjóðahvalveiðiráðsins með ríkisstjórn Bandaríkjanna í broddi fylkingar. Við hlutum því að brjóta okkur þarna út og freista þess að finna með nýjum hætti farveg til þess að vinna að framgangi þessara mála. Það tókst að fá samstöðu fjögurra ríkja við Norður-Atlantshafið til þess að stofna sjávarspendýraráð Norður-Atlantshafsins, NAMMCO. Það er verið að vinna að því að koma NAMMCO á laggirnar og starfsemi þess er að hefjast. Ákveðið hefur verið að aðalstöðvar þess verði í Noregi og nú er unnið að því að ráða starfsmann til samtakanna. Vísindanefnd hefur verið skipuð þar sem við eigum formann. Hann heitir Jóhann Sigurjónsson og næsti fundur ráðsins verður í júnímánuði nk.
    Það var samkomulag allra sem aðild eiga að NAMMCO að starf þess skyldi fyrst í stað einvörðungu ná til minni hvala og sela, þ.e. hvalastofna sem Alþjóðahvalveiðiráðið hefur ekki talið sig hafa lögsögu yfir. Allir aðilar voru sammála um að hefja starfið á þessum grundvelli og þarf samþykki allra til þess að taka ný skref í þessu efni. En alltaf hefur legið ljóst fyrir af okkar hálfu að við mundum fyrr en síðar sækja á um að það yrði gert.
    Á fundi með sjávarútvegsráðherra Noregs, sem ég átti í byrjun þessa árs, gerði ég honum grein fyrir því að við mundum fyrr en áætlað var upphaflega óska eftir því að hrefna yrði tekin til meðferðar innan NAMMCO í ljósi þess að við hefðum litið svo á að það væri forgangsverkefni að því er þetta varðar að geta hafið hrefnuveiðar. Það er of snemmt að segja fyrir um árangur af þessari málaleitan. Norðmenn vænta þess enn að meiri hluti Alþjóðahvalveiðiráðsins breyti um afstöðu og vinni að því að ná árangri á fundi þess í maí sem haldinn verður í Japan. Ég er ekki að gagnrýna Norðmenn þó að þeir vilji halda friðinn innan ráðsins fram yfir þann fund en norsk stjórnvöld hafa ítrekað lýst því yfir að fundurinn í Japan á vori komanda ráði úrslitum um afstöðu þeirra til málsins og þeir muni endurskoða afstöðu sína til ráðsins að þeim fundi loknum. Þeir hófu vísindaveiðar á hrefnu í fyrrasumar, hafa ákveðið að hefja veiðar í ágóðaskyni en hafa ekki tekið ákvarðanir um hvenær þær veiðar hefjast á þessu ári né hversu mikill kvótinn verður og ætla að bíða með þær ákvarðanir fram yfir fund Hvalveiðiráðsins í maí.
    Ég vænti þess að innan NAMMCO sé kominn sá eðlilegi vettvangur til alþjóðlegs samstarfs sem kveðið er á um í hafréttarsáttmálanum um verndun og nýtingu sjávarspendýra og við getum þróað þetta samstarf þegar fram í sækir til þess að fjalla um hvalveiðar almennt. Það er skynsamlegt að mínu mati að framkvæmda vísindalegt eftirlit og stjórnunarákvarðanir í svæðisbundnum samtökum eins og við höfum gengist fyrir stofnun á. Miklu meiri líkur eru til þess að skynsamlegar ákvarðanir séu teknar á þeim grundvelli og í samræmi við alþjóðahvalveiðisáttmálann og samþykktir umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
    Við erum nú að undirbúa upplýsingaherferð og höfum leitað eftir samstarfi fjölmargra hagsmunasamtaka í landinu til þess að senda út upplýsingar um stefnu okkar í þessu efni og grundvallarviðhorf og höfum hvarvetna fengið góðar undirtektir. Ég vænti þess að innan skamms geti útsending á þessu upplýsingaefni hafist. Við eigum við ramman reip að draga. Ljóst er að það er mikil andstaða gegn hvalveiðum meðal margra áhrifaríkra þjóða. Bandaríkjamenn beita, eða a.m.k. hóta að beita, viðskiptaþvingunum ef Íslendingar og aðrar þjóðir hefja hvalveiðar á nýjan leik og þeir hafa löggjöf um slíkar aðgerðir af sinni hálfu sem að mínu mati brýtur algerlega gegn alþjóðlegum skuldbindingum þeirra eins og GATT-skuldbindingum.
    Þegar ríkisstjórnir Evrópubandalagsríkja eins og Bretlands og Þýskalands benda á umhverfisverndarsamtök, sem hafa það á stefnuskrá sinni að hindra viðskipti, eru þessar ríkisstjórnir að halda hlífiskildi yfir samtökum sem hindra viðskipti á grundvelli GATT-samkomulags og grundvelli fríverslunarsamninga okkar við Evrópubandalagið. Þetta eru auðvitað alvarlegar staðreyndir og við hljótum þess vegna að taka þessi mál upp við ríkisstjórnir þessara landa. Sjávarútvegsráðherra Þýskalands er að koma hingað í opinbera heimsókn í kvöld og á morgun verða þessi mál m.a. tekin upp til viðræðu við hann og við munum nýta hvert það tækifæri sem við fáum til þess að ræða þessi viðfangsefni og okkar brýnu hagsmuni í þessu efni við þær þjóðir sem hér eiga helst hlut að máli. En mikilvægt er að við vinnum fast og örugglega að framgangi málsins og það höfum við gert og munum áfram gera og einbeita okkur að því að ná árangri innan NAMMCO.