Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 17:13:33 (6233)

     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Það er ekki að undra þegar svo hagar til eins og nú í atvinnumálum okkar landsmanna að menn horfi til þess að nýta þá auðlind sem hvalurinn er og flytji tillögur um að hefja hvalveiðar á ný. Tillögugerðin er þarft mál og hún gefur sjútvn. tækifæri til þess að fara mjög rækilega yfir stöðu þessara mála nú. Hvalamálið svokallaða hefur verið okkur erfitt á undanförnum árum. Það er dæmi um mál

þar sem sjónarmið umhverfisverndar, sem verður svo að dýravernd, og nýtingarsjónarmið stangast á. Þetta er vandamál sem hefur verið rakið í umræðum hér á undan.
    Það hefur komið fram í umræðunni að forustumenn í stjórnarflokkunum, hv. formaður utanrmn. og hæstv. sjútvrh., hafa örlítið mismunandi sjónarmið um úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ég vil nú hvetja þessa ágætu menn til þess að snúa bökum saman og láta þennan ágreining ekki koma fram í baráttu okkar út á við í þessu máli. Það er of mikið í húfi til þess að menn megi sundra kröftunum. Úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu er staðreynd. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum ekki náð neinum árangri innan þess ráðs af þeim fréttum sem ég hef haft af vinnubrögðum þar innan borðs. Við eigum að vinna að því öllum árum að skapa okkur annan vettvang sem nær fótfestu og viðurkenningu á alþjóðavettvangi.
    Hæstv. sjútvrh. rakti skilmerkilega gang þeirra mála og það er þar sem við eigum að vinna á næstunni eins og við höfum gert og efla þann grundvöll mjög rækilega og að þessu eigum við að standa saman. Ég tek undir það með hv. 2. þm. Vesturl. að mér finnst hafa verið dálítið hljótt um kynningu á okkar málstað á erlendum vettvangi að undanförnu. Má vera að það hafi verið einhvers konar biðstaða í þessu máli. En ef það hefur verið, þá má ekki láta það verða til þess að kynningarstarfsemi á okkar málstað leggist af. Ég er þar með ekki að segja að okkar vísindamenn og þeir sem hafa verið í forustu í þessu hvalamáli af hálfu sjútvrn. hafi legið á liði sínu. Ég veit að þar er unnið ágætisstarf að þessum málum af mjög færum mönnum. En það er almenn kynning á okkar málstað í þessum málum sem má aldrei falla niður og hún má alls ekki bíða eftir því að við hefjum hvalveiðar. Það má alls ekki bíða eftir því að fara í kynningarherferð á erlendri grund á þeim degi sem við hefjum þessar veiðar á ný hvenær sem það verður. Mestu máli skiptir það þó, þegar við erum tilbúnir að taka af skarið og hefja þessar veiðar á ný, að við séum þá tilbúnir til að taka þann slag sem það kostar.
    Þau náttúruverndarsamtök sem hér hafa verið gerð að umræðuefni eru staðreynd. Þó e.t.v. hafi gengi þeirra farið eitthvað fallandi að undanförnu, þá eru þau þó staðreynd og þau verða ekki sigruð með gífuryrðum hér úr þessum stól. Það er alveg ljóst. Og það er alveg sama hvað við stöndum á öndinni hér í þessum ræðustól á Alþingi. Þessi samtök verða ekki sigruð með þeim hætti. Þau verða eingöngu sigruð með því að menn séu tilbúnir að standa saman um íslenska hagsmuni. Ég man eftir því á þessum tíma sem ég hef verið hér á hv. Alþingi að það hefur gengið á ýmsu í þessum hvalamálum og ég man eftir því að þingið var að kikna í hnjáliðuum í þessu máli og það voru aðeins örfáir þingmenn sem komu hér í ræðustól til að halda uppi vörnum fyrir þær aðgerðir sem þá voru uppi hvalamálum. Ég er ekki að segja að sá ótti sem menn bera í brjósti sé ekki eðlilegur. Hér eru miklir hagsmunir í húfi og við erum kannski viðkvæmari en nokkur önnur þjóð fyrir efnahagslegum hryðjuverkum af því tagi sem snerta sjávarútveginn þannig að hér er ekkert gamanmál á ferðinni.
    Ég vil ljúka þessum orðum mínum og innleggi í þessa umræðu með því að hvetja menn til að standa saman í þessu máli og vera tilbúnir að taka þann slag sem það kostar þegar við hefjum hvalveiðar á ný, hvenær sem það verður.