Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 17:29:52 (6238)

     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka flm. fyrir að flytja þessa tillögu og ætla ekki að fara að endurtaka það sem hér hefur komið fram. Ég get tekið undir margt af því sem sagt hefur verið hér til stuðnings hvalveiðum. Ég tel að við höfum gert ákveðin mistök á þeim ferli og vil ekki vera að fara yfir það sérstaklega. Ég held að við hefðum verið best sett ef við hefðum aldrei hætt hrefnuveiðum, hefðum haldið þeim áfram allan tímann og ég tel reyndar að við eigum alveg að geta staðið þann slag af okkur þó svo að við mundum hefja þær veiðar og gera það sem allra fyrst.
    Ég kemst eiginlega ekki hjá því í sambandi við þessa tillögu að draga athyglina að því sem hefur verið sagt hér, t.d. því sem hæstv. umhvrh. sagði. Hann varaði mjög við því að menn flýttu sér mjög mikið í þessu máli og það var varla hægt að skilja hann á annan veg en þann að hann gæti þá varla skrifað upp á þessa tillögu. Mér finnst alla vega að hann hafi skilið það sem ég var að segja um það að fara varlega þannig að það væri hæpið að það væri hægt að koma við allri þeirri varúð sem hann hvatti til á þeim tíma sem við höfum fram að hvalvertíð í sumar ef menn ætli sér að byrja á að veiða hrefnu. Og þess vegna er það nú sem ég vil segja það aftur sem ég sagði áðan hér í andsvari. Mér finnst eins og það sé ákveðin varúð sem hafi komið fram hér í umræðunni og ég hef af því áhyggjur að það muni kannski ekki vera fullur stuðningur við það að hefja hvalveiðar í sumar þó að menn hafi talað býsna jákvætt um þessa tillögu núna. Vitanlega er það þannig að tillagan er mjög lík þyrlutillögunni að því leyti til að það liggur fyrir ákveðin stefna ríkisstjórnarinnar í málinu. Hér kemur fram tillaga um að skora á ríkisstjórnina að gera það sem ríkisstjórnin er búin að segja að hún ætli að gera, þ.e. að koma af stað hvalveiðum. En hér er hvatt til þess, ekki bara hvatt heldur eru hér fyrirmæli til ríkisstjórnarinnar um það að hún skuli sjá til þess að hvalveiðar hefjist á þessu ári og ekki seinna. Það eru vissulega skýr og ákveðin skilaboð ef Alþingi samþykkir þessa tillögu og ég fagna því mjög ef menn treysta sér til þess að gera það og standa saman um hana.