Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 17:35:53 (6241)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þm. hlýtur að þekkja þann kafla í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni, þar sem segir með leyfi forseta:
    ,,Íslensk stjórnvöld telja að fiskveiðiþjóðir þurfi að snúa vörn í sókn og vinna sameiginlega gegn stefnu sem leiðir til ofverndunar einstakra tegunda, enda er það stefna ríkisstjórnarinnar að nýta beri sjávarspendýr undir vísindalegu eftirliti á sama hátt og fiskstofnar eru nýttir.``
    Það er nákvæmlega sú stefna sem kemur fram í þessari þáltill. og þess vegna er þáltill. árétting og stuðningur við þetta sjónarmið ríkisstjórnarinnar. Og það að menn séu að hvetja til einhverrar varfærni er auðvitað ekki annað en það að menn eru að reyna að gæta þess að hægt sé að ná þeim markmiðum sem menn vilja stefna að. Það sem kom glögglega fram í máli hæstv. sjútvrh. hér áðan var einfaldlega það að unnið væri kappsamlega innan NAMMCO að því að búa þannig um hnútana að hér gætu hafist hvalveiðar, einkanlega hrefnuveiðar, undir vísindalegu eftirliti á vettvangi viðeigandi stofnana alveg eins og gert er ráð fyrir í hafréttarsáttmálanum. Það er að vísu sjónarmið Norðmanna sem getur vissulega verið umdeilanlegt en kannski skiljanlegt út frá þeirra sjónarhóli að þeir vilja bíða og sjá hvað kemur út úr ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins núna í maí en að því búnu ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að hefja þessar veiðar á vegum NAMMCO, enda er það auðvitað augljóst mál eins og ég hef verið að árétta í máli mínu, að ef við eigum nokkurs staðar von á því að fá skilning á okkar sjónarmiðum, þá er það auðvitað meðal nágrannaþjóða okkar sem hafa sömu hagsmuni og hafa sama skilning á mikilvægi þess að nýta alla fiskstofnana og sjávarspendýrin í hafinu í kringum okkur.