Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 17:44:24 (6244)

     Flm. (Guðjón Guðmundsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu sem hefur orðið um þessa tillögu okkar og þann mikla stuðning við þessa tillögu sem komið hefur fram hjá þeim sem hér hafa tekið til máls. Það eru vissulega nokkur vonbrigði að heyra það hjá hæstv. sjútvrh. hvað Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðið fer hægt af stað og vonandi að þar verði breyting á sem fyrst.
    Hv. þm. Björn Bjarnason sagðist ekki sannfærður um að það ætti að hefja hvalveiðar á næsta sumri, en það er mín skoðun að eftir því sem við bíðum lengur með að hefja þessar veiðar þeim mun meiri líkur séu á að þær leggist endanlega af.
    Hv. þm. Árni Johnsen sagði baráttu gegn hvalveiðum Íslendinga byggjast fyrst og fremst á móðursýki frekar en rökum. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. og gegn þessari baráttu duga í sjálfu sér engin rök. Ég rakti í fyrri ræðu minni þau vísindalegu rök sem við höfum fært fram og sanna að hér hefur verið vel að þessum veiðum staðið og við höfum forðast að ofveiða stofnana. Við eigum vísindamenn sem eru í fararbroddi hvað varðar hvalarannsóknir og öll vísindi sem þar að lúta. Þeir sem á annað borð eru á móti þessum veiðum blása á rök þessara manna eins og öll önnur rök sem fram hafa komið í málinu. Þess vegna verðum við að taka af skarið og hefja þessar veiðar sem fyrst. Það mun að sjálfsögðu kosta einhvern slag en þann slag verðum við einfaldlega að taka.
    Það hefur frést af því eins og hér hefur komið fram að það sé hafin barátta gegn fiskveiðum vegna þess að ekki megi taka fæðuna frá hvölum og öðrum sjávarspendýrum og við skulum athuga það að ef við látum deigan síga hvað varðar hvalveiðarnar, þá megum við búast við því að næst verði ráðist gegn fiskveiðum okkar og hvað ætlum við þá að gera?
    Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi að við mættum ekki óttast andstöðuna of mikið. Ég er þeirrar skoðunar að andstaða við þessar veiðar sé allt of mikið blásin upp og menn séu of hræddir við hana. Ég held að ef við hræðumst þessa andstöðu allt of mikið verði löng bið á því að Íslendingar hefji hvalveiðar að nýju því að þessi andstaða verður að sjálfsögðu fyrir hendi um ókomin ár.
    Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur nefnt það hér nokkrum sinnum að þessi tillaga sé vantraust á forustu ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Ég hef tekið það fram hér fyrr og get endurtekið það að samþykkt þessarar tillögu hér á Alþingi sé tvímælalaust mikill styrkur fyrir hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnina og framgang þessa máls og því meiri styrkur sem þessi tillaga fær meiri stuðning.
    Hv. þm. Jón Kristjánsson nefndi það að við verðum að taka þennan slag hvað sem það kostar að hefja þessar veiðar á ný. Aðalatriðið sé samstaða og ég er honum mjög sammála. Ég held að við sigrum í þessari baráttu með samstöðu. Þess vegna vona ég að sem mest samstaða verði um þessa tillögu hér á Alþingi. Sú samstaða mun sýna andstæðingum okkar það að okkur er full alvara. Þess vegna vona ég að sem mestur stuðningur verði við tillöguna og Alþingi klofni ekki í tvo jafnstóra hópa eins og gerðist þegar greidd voru atkvæði gegn hvalveiðibanninu.
    Hér hefur verið rætt nokkuð um svokölluð umhverfisverndarsamtök og ég vil taka undir það sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði um þau samtök almennt. Áhersla þessara samtaka á baráttuna gegn hvalveiðunum helgast fyrst og fremst af því að þessi barátta gefur samtökunum fé í aðra hönd. Á því leikur enginn vafi. Það er mjög sérkennilegt að hamast gegn hvalveiðum en láta síðan afskiptalaus t.d. sportdráp á dýrum í Bretlandi þar sem andstaða gegn hvalveiðum er mikil og einnig, eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefndi, að láta afskiptalausar pyndingar á dýrum eins og nautaat óneitanlega er.
    Ég nefndi í ræðu minni þann mikla áhuga sem er víða á því í þjóðfélaginu að hvalveiðar hefjist að nýju. Það er mjög almenn skoðun margra á vinnumarkaðinum að það eigi að hefja þessar veiðar. Við eigum að nýta þessa auðlind og þau miklu atvinnutækifæri sem þarna eru á ferðinni. Það hefur skýrt komið fram í ályktunum fjölmargra samtaka. Ég las í fyrri ræðu minni ályktun þings Alþýðusambandsins sem haldið var fyrir jól og vil, með leyfi forseta, lesa örstutta búta úr nokkrum öðrum ályktunum. Það er þá fyrst Landssamband ísl. útvegsmanna. Þar segir:
    ,,Fundurinn telur að auka þurfi verulega rannsóknir á því hve hrikalegar afleiðingar það muni hafa á nytjastofna okkar ef hvalastofnarnir stækka óhindrað hér við land.``
    Farmanna- og fiskimannasamband Íslands segir: ,,Mikil fjölgun hvala, sela og fugla er bersýnileg hér við land. Þessi þróun er alvarlegt áhyggjuefni í ljósi þess hvað þessar tegundir taka mikið til sín af sjávarfangi í samkeppni við manninn. Af þessum sökum er því nauðsynlegt í fyrirhuguðum fjölstofnarannsóknum á vegum Hafrannsóknastofnunar að athuga rækilega áhrif sjávarspendýra og sjófugla á lífríkið umhverfis landið.``
    Sjómannasamtökin, Sjómannasamband Íslands og Farmannasambandið, eru með sameiginlega ályktun þar sem segir: ,,Jafnframt benda sjómannasamtökin á að ef Alþjóðahvalveiðiráðið ákveður áframhaldandi hvalveiðibann verður afkomu þeirra sjómanna sem stunda fiskveiðar við strendur landsins og þar með þjóðarinnar allrar stefnt í hættu í framtíðinni vegna offjölgunar sjávarspendýra.``
    Í ályktun Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna segir: ,,Þeirri skoðun vex nú mjög fylgi að áframhaldandi hvalveiðibann og aukin hvalagengd sem talið er að fylgi slíku banni muni leiða til minnkandi fiskafla á komandi árum. Þess vegna telur SH nauðsynlegt að vísindalegar niðurstöður um áhrif hvalveiðibanns á fiskstofna við Ísland liggi fyrir hið fyrsta.``
    Ég ætla að láta þetta nægja en ég er með fleiri ályktanir frá ýmsum samtökum á vinnumarkaðinum sem allar hníga í sömu átt.
    Ég gat um það í fyrri ræðu minni að Alþjóðahvalveiðiráðið væri orðið að eins konar hvalfriðunarstofnun. Sú skoðun er nú nokkð almenn eins og sést í stuttri frétt í janúarhefti Fréttabréfs Evrópubandalagsins en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Tillaga framkvæmdastjórnar EB um að Evrópubandalagið sæki um inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið sætir vaxandi andstöðu hjá ríkjum innan bandalagsins. Sjávarútvegsráðherra Danmerkur, Kent Kirk, hefur lýst þeirri skoðun sinni að eins og uppbygging hvalveiðiráðsins sé nú stjórnist það aðeins af fulltrúum sérhagsmuna þar sem rök mega sín lítils. Hann segir að til þess að Evrópubandalagið getið orðið meðlimur í ráðinu verði áður að hafa orðið grundvallarbreytingar á stefnu þess í hvalveiðimálum. Stefnubreytingar gætu hins vegar valdið því að nýjar kröfur kæmu fram sem leitt gætu til upplausnar í ráðinu vegna hugsanlegrar úrsagnar aðildarlandanna úr því.``
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta mál við fyrri umr. Málið fær væntanlega vandlega skoðun í hv. sjútvn. og kemur vonandi þaðan sem fyrst til síðari umræðu í þinginu. En ég ítreka það sem ég hef áður sagt að öflug kynning er nauðsynleg. Við þurfum að kynna málstað okkar fyrir ráðamönnum og fjölmiðlum í þeim löndum þar sem andstaðan er mest. Ég vil svo endurtaka að ég tel mjög mikilvægt að Alþingi álykti um þetta mál, það styrkir hæstv. sjútvrh. í baráttu hans að hafa bak við sig þann ótvíræða vilja Alþingis að hvalveiðar skuli hefjast að nýju.