Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 17:52:41 (6245)


     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl. að í ræðu minni hér áðan lýsti ég

efasemdum um tímasetningar í þessu máli. Ég vil beina því til flm. og mér finnst að sjútvn. þurfi að athuga það sérstaklega hver staða okkar er á grundvelli hafréttarsáttmálans varðandi það hefja veiðar tafarlaust þegar við erum hvorki í Alþjóðahvalveiðiráðinu og NAMMCO hefur ekki tekið ákvörðun um að ná yfir t.d. hrefnur eða stórhveli. Hvaða réttarstöðu höfum við meðan þessi aðstaða okkar er með þessum hætti í alþjóðlegu samstarfi?
    Mér finnst að þetta þurfi að rannsaka gaumgæfilega því að ég skil ákvæði hafréttarsáttmálans þannig að ríki þurfi að starfa saman og það þurfi að vera einhver vettvangur þar sem ákvarðanir um þetta séu teknar og þar sem ríki fallist á að verndunarsjónarmið séu í heiðri höfð. Mér finnst að þetta millibilsástand sé þess eðlis að það þurfi að kanna það. Það er einmitt af þessum ástæðum, ekki af því að ég sé á móti því að hefja hvalveiðar, heldur finnst mér að það megi ekki stíga nein þau skref í þessu viðkvæma máli sem spilli fyrir varanlegri viðurkenningu á rétti okkar til hvalveiðanna.
    Ég spyr hv. flm. og frsm. hvort hann hafi hugleitt þessa stöðu okkar og hvort honum finnist ekki eðlilegt að þetta atriði sé sérstaklega og gaumgæfilega kannað í meðförum hv. sjútvn. og sem formaður utanrmn. vil ég líka setja fram þá ósk að sú nefnd fengi að fylgjast með einmitt þessum þætti því að þetta snertir samstarf okkar á alþjóðavettvangi og innan þeirrar nefndar hefur verið rætt um t.d. þátttökuna í NAMMCO og þar var rætt um úrsögn okkar úr Alþjóðahvalveiðiráðinu.