Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 11:35:12 (6251)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég ætla að víkja að þremur atriðum sem fram komu í máli hv. 4. þm. Norðurl. e.
    Í fyrsta lagi vil ég vekja athygli á því, eins og kom reyndar fram í máli hv. þm. sjálfs, að í 1. gr. frv. eru sveigjanleg ákvæði um það hvernig eiginfjárstaða Landsbankans verði bætt. Þar segir að hana megi bæta með reiðufé, ríkisskuldabréfum, víkjandi lánum eða öðrum jafngildum hætti. Það er ekki skynsamlegt að setja á langar umræður í þinginu um þau bókhaldsatriði hvernig best sé að halda þessu til haga en ég get fullvissað hv. þm. um það að því verður þannig beitt að endurskoðendur bankans og aðrir sem að málinu koma telji það þjóna hagsmunum hans og eigandans, ríkisins, best. Þetta eru mál sem er ekki hægt að fullyrða um á þessu stigi hvernig verði endanlega afgreitt og því betra að hafa um það færri orð en fleiri.
    Í öðru lagi hélt þingmaðurinn því fram að þær aðgerðir sem hér eru til umræðu veiki lánstraust bankans og landsins út á við. Fyrstu viðbrögð við þessum aðgerðum benda til hins gagnstæða. Þessum aðgerðum hefur alls staðar verið tekið vel af viðskiptavinum bankans og mælast vel fyrir. Ég held að þær hafi einmitt sannfært menn um það að hér sé bankakerfi sem býr við traust og mun njóta þess áfram.
    Ég vil svo að lokum taka það fram um stjórn tryggingarsjóðanna að stjórnirnar eru skipaðar í krafti reglugerðarheimilda sem viðskrh. hefur, hann getur breytt stjórnun þeirra og mun að sjálfsögðu taka mið af því sem fram hefur komið í umræðum um þetta mál í hv. efh.- og viðskn.