Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 11:37:13 (6252)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir að staðfesta í fyrsta lagi það sem ég sagði að afar margt væri óljóst í sambandi við útfærslu þessara aðferða. Hæstv. ráðherra viðurkenndi að það væri margt óljóst og reyndar svo óljóst að það má ekki tala um það. Hann baðst undan því að rætt væri hvernig ætti að fara að þessu. Ég skal verða við því að ræða það ekki frekar.
    Í öðru lagi hvort þetta veikir lánstraust okkar út á við eða ekki. Vonandi hefur hæstv. viðskrh. rétt fyrir sér en því miður er það þannig að aðrir, við skulum segja sérfræðingar, meta þetta öðruvísi. Ég hygg að það hafi komið fram í fjölmiðlum í gær að Valur Valsson óttast að þetta muni tímabundið veikja lánstraust okkar eða rýra lánskjör, gera þau lakari. Sömu upplýsingar komu fram frá öðrum í efh.- og viðskn. í gær, m.a. upplýsingar um að þegar væru komin í biðstöðu mál, lánssamningar sem staðið hefðu yfir viðræður um milli íslenskra banka og erlendra aðila vegna þessa máls. Þau hefðu verið lögð á ís á meðan þetta gengi yfir.
    Ég held að það sé ekki mikið að marka þótt einhvers staðar hafi fundist eins og hjá Enskilda bankanum, sem var í eignalegum tengslum við Landsbankann og væntanlega bíður eftir svipaðri fyrirgreiðslu sjálfur, maður sem telji þetta jákvætt. Ég held að það sé fyrst og fremst hið almenna andrúmsloft í bankaheiminum og efnahagsheiminum sem sé mælikvarði á það. Ég held til að mynda að ekki sé nokkur leið að flokka grein, eins og ég áður nefndi í Financial Times, undir jákvæða auglýsingu. Það er bara ekki hægt. Áhrifin af slíkri umfjöllun geta ekki orðið önnur en neikvæð, því miður. En við skulum vona að skaðinn verði sem minnstur.
    Varðandi stjórn tryggingarsjóðsins þá er það einmitt það sem gengur auðvitað ekki að hæstv. viðskrh. skipi hana með reglugerð þegar hann er búinn að fá tveggja milljarða heimildina. Það er fína kerfið. Fyrst handvelur ráðherra stjórnina og svo hefur hann opna tveggja milljarða heimild til þess að ráðskast með í samráði við þá stjórn.