Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 12:04:12 (6256)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Um leið og ég tek undir það með hv. 1. þm. Austurl. að ekki sé fyrirsjáanleg þörf fyrir frekari víkjandi lánveitingar á grundvelli 5. gr. laga frv. sem við ræðum hér í dag vil ég staðfesta að ég tel eðlilegt að samráð verði haft við efh.- og viðskn. ef svo færi einhvern tímann í framtíðinni að á þetta kynni að reyna.
    Ég vil líka taka það fram að ég tek undir það sjónarmið, sem kemur fram í nál. meiri hlutans, að það sé nauðsynlegt að flýta endurskoðun lagaákvæða um tryggingarsjóði innlánsstofnana, bæði viðskiptabanka og sparisjóða. Ég vil líka benda á að í athugasemdum með frv. er að þessu vikið og þörfinni fyrir endurskoðun á lagaákvæðunum um sjóðina, um hugsanlega sameiningu þeirra og eflingu og að sjálfsögðu um breytt stjórnarfyrirkomulag í þeim með hliðsjón af breyttu hlutverki þeirra.
    Ég vil svo að endingu segja það alveg skýrt að með 6. gr. þessa frv. er ekki verið að draga úr skýrri ábyrgð og eftirlitsskyldu þeirra stofnana og aðila sem um þau mál fjalla nú í bankakerfinu, heldur er hér eingöngu verið að ítreka af hálfu Alþingis það aðhald og þær kröfur til þeirra stofnana sem fengju fyrirgreiðslu á grundvelli þessara laga sem Alþingi hlýtur að gera kröfu um.