Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 12:06:25 (6258)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Um þetta frv. sem hér er komið til 2. umr. má nota þau orð að allt orkar tvímælis þá gjört er. Það er vægast sagt margt í þessu frv. og í þeim aðgerðum sem fram undan eru gagnvart Landsbankanum sem orkar tvímælis. Engu að síður hef ég komist að þeirri niðurstöðu að vandlega athuguðu máli að skrifa undir álit meiri hluta efh.- og viðskn. með fyrirvara vegna þess að ég tel þetta mál vera af mjög alvarlegum toga og brýnt að um það myndist sem breiðust samstaða og svo hitt að meiri hluti nefndarinnar náði að miklu leyti saman um þetta mál þó ég hefði í ýmsum atriðum viljað ganga mun lengra.
    Það er fróðlegt að rifja það upp að málefni Landsbankans hafa oft komið til kasta Alþingis og því miður oft út af vandræðum sem þar hafa skapast. Ég rifja þetta upp vegna þess að það hefur komið fram í umræðum hér að menn hafa ekki farið rétt með sögu bankans og það særir mig þegar ekki er farið rétt með sögulegar staðreyndir. Hann var stofnaður árið 1885 og tók til starfa 1886. Í svo langri sögu er auðvitað ekki von á öðru en að upp komi vandræði og ég held ég muni það rétt að a.m.k. einu sinni hafi málefni Landsbankans valdið afsögn ráðherra og stjórnarkreppu. En það er annað mál og virðist vera sem stjórnarkreppu hafi verið afstýrt að þessu sinni. En hvað um það. Ég hef mikla fyrirvara við þetta mál þó ég telji að aðgerðir í málefnum bankans séu mjög nauðsynlegar og ég ætla að styðja þær.
    Þeir fyrirvarar sem ég hef við þetta mál eru varðandi 3. gr., 5. gr. og 6. gr. frv. Þar er fyrst að nefna Tryggingarsjóð viðskiptabankanna og það atriði að farið skuli út í að breyta hlutverki hans með svo afgerandi hætti í svona miklum fljótheitum. Í þinginu er til meðferðar frv. um viðskiptabankana og við í efh.- og viðskn. erum komin nokkuð á veg í vinnslu þess. Þar hefði verið hægt að taka á þessari breytingu og ræða það og kanna í rólegheitunum hvort rétt sé að breyta hlutverki tryggingarsjóðsins með þessum hætti og gera hann þar með að sama fyrirbæri og Tryggingarsjóður sparisjóðanna er. Ég hefði verið tilbúin að samþykkja það að nota sjóðinn til að rétta Landsbankann af einu sinni en skoða síðan hlutverk sjóðsins í rólegheitum.
    Það er farið nokkuð hratt fram og sú spurning vaknar hvort sú aðferð sem hér er beitt sé rétt. Ég er líka á þeirri skoðun að í rauninni ætti að leita til þingsins í hvert eitt sinn því hér er oftast um miklar upphæðir og ríkisfyrirtæki að ræða og ekki óeðlilegt að það komi til þingsins, enda stjórn Landsbankans kjörin af þinginu.
    Þá er það að nefna að í 5. gr. er veitt opin heimild upp á 3 milljarða kr. þó ljóst sé að Landsbankinn þarf ekki á meira en milljarði að halda í þetta sinn. Vonandi þarf hann ekki oftar að sækja í þennan sjóð. Það orkar vissulega tvímælis að fjmrh. veiti ábyrgð fyrir 3 milljörðum kr. þegar ljóst er að ekki er þörf á svo miklu. Það orkar tvímælis hvernig að þessu er staðið.
    Varðandi 6. gr. hefur það verið gagnrýnt af hálfu Landsbankans að þar skuli eiga að binda í lög að gera eigi sérstakan samning við bankann og fleiri fjármálastofnanir ef til einhvers konar fyrirgreiðslu kemur og að það skuli standa í lögum að stofnunin skuldbindi sig til að grípa til aðgerða til að bæta afkomu sína og eiginfjárstöðu því auðvitað eru bankarnir stöðugt að gera það. Eins og fram hefur komið í umræðunni hefur Landsbankinn á undanförnum árum verið að taka mjög einarðlega á sínum málum. Það má segja að það felist í þessu örlítið vantraust á bankann. Það má kannski segja að af hálfu ríkisins sé eðlilegt að hafa tæki eins og þetta en þau eru í öðrum lögum. Hlutur ríkisins er mikill í stjórn bankans. Alþingi kýs bankaráð og bankaeftirlitið fylgist með allri starfsemi bankans og við erum einmitt að undirbúa ný lög um viðskiptabankanna þannig að í rauninni eru allar þær heimildir til staðar sem til þarf.
    Þá er auðvitað ekki hægt að láta hjá líða að nefna meðferð ríkisstjórnarinnar á þessu máli eins og kom rækilega fram við 1. umr. þessa máls. Því lengra sem líður frá þessu upphlaupi þeim mun meira verður mér hugsað til þess hversu furðulegt það er að ríkisstjórnin skuli ekki fyrir fram leita eftir samstöðu um mál sem er jafnbrýnt og þetta og að það skyldi ekki hafa verið haft samráð við stjórnarandstöðuna um þetta mikilvæga mál og hvernig á því skyldi haldið.
    Í efh.- og viðskn. náðist það fram að nefndin hefur lýst því yfir að hún telur eðlilegt að mál af þessu tagi komi fyrir fram inn á borð nefndarinnar, að haft sé samráð við nefndina og þar með er það komið inn á borð þingsins. Ég vona svo sannarlega að við þetta verði staðið því annað getur ekki talist eðlilegt í svona viðkvæmum málum og ég held að með slíkum vinnuaðferðum megi komast hjá miklum upphlaupum og óróa úti í þjóðfélaginu sem getur ekki annað en skaðað bankann.
    Þá vil ég einnig nefna eitt, sem hefur ekki verið fyrirferðarmikið í þessari umræðu, en það er það atriði hvernig Búnaðarbankinn er dreginn inn í þetta mál. Í grg. segir að fyrirgreiðsla við Landsbankann sé háð því að viðræður hefjist milli Landsbankans og Búnaðarbankans. Eftir að efh.- og viðskn. hefur farið í gegnum þann hluta málsins sjá menn ekki mikla möguleika í þessu efni. Menn telja víst að eigendur greiðslukortafyrirtækjanna séu ekki sérlega spenntir fyrir því að annaðhvort Landsbankinn eða Búnaðarbankinn eignist meiri hluta í þeim og þegar allt sé talið sé það fyrst og fremst í fyrirtækinu Lýsingu þar sem til greina kemur að slík eignaskipti fari fram. Það er því spurning hvað er raunhæft í þessum efnum og hvort aðgerðir af þessu tagi verði að einhverju leyti til þess að styrkja eignastöðu Landsbankans.
    Það sem ég hef rakið sýnir að mínir fyrirvarar við þetta mál eru býsna stórir en eins og ég nefndi áðan er hér mjög alvarlegt mál á ferðinni og brýnt að ljóst sé að Landsbankinn nýtur trausts og að á Alþingi sé ótvíræður vilji til þess að styrkja stöðu bankans þó um það megi deila hvaða aðferð sé best til þess og sú aðferð sem hér er farin orki tvímælis. Ég hefði frekar kosið þá aðferð sem stjórn bankans vildi fara í upphafi en hún kemur ekki heim og saman við hugmyndir ríkisstjórnarinnar um sjóði og hugmyndir hennar um það hvernig eigi að ná niður halla ríkissjóðs. Þeirri leið var því hafnað, þ.e. að stofnað yrði einhvers konar fyrirtæki eða sjóður sem keypti þær eignir og skuldir sem Landsbankinn situr uppi með en bankanum yrði síðan falið að koma þeim í verð. Ríkisstjórnin er viðkvæm fyrir sjóðaumræðunni og því kom þessi aðferð ekki til greina af hennar hálfu.
    Ég vil líka ítreka það sem ég nefndi við 1. umr. um þetta mál að ég tel eðlilegt að menn fari ofan í þróun Landsbankans og skoði það u.þ.b. 10 ár aftur í tímann hvernig á málum hefur verið haldið í bankanum til þess að menn átti sig betur á vandanum, hvernig hann hefur skapast og hvaða pólitík hefur ráðið í útlánastarfsemi. Ég veit að þetta er viðkvæmt mál en það er nauðsynlegt að við áttum okkur á því hvað hefur gerst í bankamálunum og hvernig menn hafa haldið á spöðunum.
    Ég vil líka nefna eitt í þessu samhengi og það er sú fréttatilkynning sem Seðlabankinn sendi frá sér út í heim og vissulega verður að nokkru leyti til að binda hendur okkar á Alþingi. Í þeirri fréttatilkynningu kemur fram að Tryggingarsjóður viðskiptabankanna verði opnaður og þar verði að baki 3 milljarðar kr. en fréttatilkynningin var send út í heim áður en nokkur lagaheimild var til staðar fyrir slíkri breytingu. Að sjálfsögðu var nauðsynlegt að reyna að róa viðskiptavini okkar og lánardrottna úti í heimi en það stingur í augu að bankinn skuli ákveða þetta með þessum hætti og gerir það að verkum að okkur er þrengri stakkur skorinn við mat á þeim leiðum sem fram undan eru því það vekur líka ákveðinn óróa ef verið er að hringla mikið í þessu máli.
    Virðulegi forseti. Eins og hér hefur komið fram þá hef ég fyrirvara varðandi 3., 5. og 6. gr. frv. Ég vil taka það skýrt fram að ég áskil mér rétt til þess að styðja brtt. sem ég tel vera til bóta á þessu frv. Að öðru leyti styð ég það og vona að það fjaðrafok sem hér hefur orðið verði ekki til þess að skaða Landsbankann á nokkurn hátt og að með þessum aðgerðum takist að styrkja stöðu hans.