Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 13:34:44 (6265)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þessi brtt. sem hér er til atkvæða gengur út á það að taka af öll tvímæli um að hluti af þeirri aðstoð til Landsbanka Íslands sem fjallað er um í 1. gr. geti orðið á því formi að eigandinn, ríkið, yfirtaki einhvern hluta eigna eða útlána bankans og bæti með slíkum aðgerðum stöðu hans. Það má segja að 1. gr. loki í sjálfu sér eins og hún er orðuð samkvæmt frv. ekki á það að slíkt geti komið til, en hitt hlýtur að vekja spurningar ef Alþingi fellir þá brtt. sem hér er fram borin, hvort þar sé Alþingi ekki að láta í ljós þann vilja sinn að ekki skuli verða um slíka yfirtöku eigna eða útlána að ræða. Ég lít svo á að þó svo að segja megi að brtt. sé fyrst og fremst til nánari skýringa á eða til að taka af tvímæli varðandi heimildir í 1. gr. frv., þá hljóti hitt að verða mjög alvarlegt umhugsunarefni ef Alþingi fellir þessa viðaukatillögu við 1. gr. hvort þar með verði ekki að líta svo á að verið sé að hafna því að einhver hluti af aðstoðinni við Landsbanka Íslands geti orðið í þessu formi. Ég teldi að slíkt væri mjög miður og vil láta það koma fram hér við atkvæðagreiðslu og vona að menn hugsi gang sinn í því ljósi. Ég segi að sjálfsögðu já, hæstv. forseti.