Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 13:46:49 (6268)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Þegar innlánsstofnanir lenda í fjárhagslegum erfiðleikum, þá er eðlilegt að það sé tekið fyrir á Alþingi hverju sinni og því teljum við þm. Framsfl. það eðlilegast að aðeins sé veitt heimild til þes að lána Landsbanka Íslands í þessu tilviki. Hitt er svo annað mál að það hefur verið gefið út, bæði inn á við og út á við, að þessi sjóður hafi verið stofnaður og því má leiða af því líkum að ef það yrði dregið til baka gæti það skapað vantraust á þeim aðgerðum sem nú er verið að fara í. Við umfjöllun málsins hefur hæstv. viðskrh. gefið þá yfirlýsingu að ef til slíkra aðgerða kunni að koma í framtíðinni, sem engar líkur eru á í dag eftir viðtöl við bankana, þá muni verða haft samráð um það við efh.- og viðskn. þingsins. Ég tel að þessi yfirlýsing sé mikilvæg þótt betra hefði verið að aðeins hefði verið afgreidd

ábyrgð upp á 1 milljarð nú. Ég mun því sitja hjá við afgreiðslu þessarar tillögu og greiði ekki atkvæði.