Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 13:49:55 (6270)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um það, eins og fram hefur komið, hvort eigi að takmarka heimildina í 5. gr. við þá fjárhæð sem fram hefur komið að ætluð er Landsbankanum. Nú virðist það vera að gerast hér að stjórnarliðið á Alþingi sé að fella þessa brtt. Það er mjög merkilegt vegna þess að hér í salnum sitja ýmsir, og hafa nokkrir þeirra þegar greitt atkvæði, sem m.a. hafa flutt frv. hér á Alþingi, eins og formaður fjárln., þar sem bannað er algerlega að afgreiddar séu opnar heimildir af því tagi sem hér á að veita til ráðherra. Svo hefur verið á Alþingi um nokkurt árabil. Þar hefur m.a. verið í fararbroddi fyrrv. formaður fjárveitinganefndar, núv. heilbrrh., þar sem menn hafa lagt á það höfuðáherslu sem nauðsyn endurbóta í ríkisfjármálum að það tilheyrði liðinni tíð að afgreiddar væru opnar heimildir af því tagi sem stjórnarmeirihlutinn virðist nú ætla að fara að afgreiða. Þessi atkvæðagreiðsla hér gefur þess vegna fullkomið tilefni til að draga í efa heilindi þeirra manna sem talað hafa hér á Alþingi og jafnvel flutt frumvörp um að nú þurfi þingið að sameinast um þá endurbót í ríkisfjármálum að hætta þeim gamla sið að afgreiða jafnopnar heimildir eins og eru í þessu frv.
    Það er líka athyglisvert að bankastjóri Íslandsbanka hefur farið fram á það opinberlega í viðtali að ekki verði opnað á það í þessari 5. gr. að lánveitingin geti verið umfram það sem ætlað er Landsbankanum vegna þess að slíkt kunni að skapa óvissu um stöðu Íslandsbanka. Það er mjög athyglisvert að þeir ráðherrar og stjórnarliðið sem færir sérstaklega fram þau rök að nauðsynlegt sé að eyða óvissu um bankakerfið í landinu ætlar ekki að verða við þessari ósk bankastjóra Íslandsbanka. Þessi atkvæðagreiðsla er þess vegna öll hin sérkennilegasta og sýnir satt að segja enn á ný hve skynsemin ræður lítið för hjá forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli. Ég segi já við þessari brtt. vegna þess að hún er eina leiðin til þess að reyna að leiða þetta frv. inn á einhverjar skynsamlegar brautir.