Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:15:04 (6272)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Í tengslum við það frv. sem hér er til afgreiðslu hafa verið gefnar yfirlýsingar m.a. af hæstv. forsrh. og bankastjóra Seðlabankans sem nauðsynlegt er að inna hæstv. viðskrh. eftir hvort hann sé sammála.
    Það hefur ekki farið fram hjá neinum í þessum sal að um langt skeið hefur hæstv. viðskrh. lýst því yfir að það væri eitt af meginverkefnum ríkisstjórnarinnar á þessu ári að breyta Landsbanka Íslands í hlutafélag og breyta Búnaðarbankanum einnig í hlutafélag. Síðan hefur ráðherrann lýst því yfir hvað eftir annað að það sé síðan stefnumarkmið ríkisstjórnarinnar að selja þessa banka. Í fjárlögum yfirstandandi árs er síðan gert ráð fyrir 1 milljarði í tekjur sem að meginhluta áttu að koma vegna sölu á öðrum þessara ríkisbanka. Það hefur hins vegar verið vitað að þó nokkur ágreiningur hefur verið, m.a. innan Alþfl., um þetta mál og einnig er ljóst að mikil óvissa hefur skapast um það að öðru leyti.
    Nú hefur því verið marglýst yfir af hæstv. ráðherrum í ríkisstjórninni, m.a. hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh., að mjög nauðsynlegt sé að eyða óvissu sem ríkir varðandi stöðu íslenska bankakerfisins. Einn af þeim þáttum sem tengist þessari óvissu er rekstrarform bankanna sjálfra vegna þess að það hefur afgerandi áhrif á stöðu þeirra á erlendum mörkuðum og viðhorf viðskiptaaðila gagnvart þeim. Það er t.d. vitað að þegar Íslandsbanki var stofnaður fluttu ýmsir viðskiptaaðilar fyrrum hlutafjárbankanna sig yfir í ríkisbankana vegna þess að þeir kusu frekar að vera þar. Það er einnig vitað að Íslandsbanki hefur orðið að greiða hærri lántökugjöld á erlendum mörkuðum vegna þess að hann er í hlutafélagsformi en ríkisbankarnir hafa hins vegar notið þess að hafa þann bakhjarl sem felst í eignarformi þeirra.
    Nú hefur það gerst í tengslum við þá atburði sem hér hafa orðið að bæði hæstv. forsrh. og bankastjóri Seðlabankans, Jóhannes Nordal, hafa lýst því yfir opinberlega að nú sé ekki tími til þess að einkavæða bankana. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í viðtali við Morgunblaðið 17. mars þegar hann var spurður eftirfarandi spurningar: ,,Er þá einkavæðingu ríkisbankanna beggja slegið á frest?`` Svar hæstv. forsrh. var á þessa leið, með leyfi forseta: ,,Ég hygg að nú sé ekki tíminn til að einkavæða bankana. Menn verða að bíða þar til markaðurinn er hagstæðari. Hvenær það verður vil ég ekki spá um.``
    Sama dag, miðvikudaginn 17. mars, birtist í DV viðtal við Jóhannes Nordal, aðalbankastjóra Seðlabankans. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Það er alveg ljóst að einkabankar þurfa á miklu eigin fé að halda við núverandi aðstæður. Og í þessu árferði er ekki sérstaklega auðvelt að breyta ríkisbönkum í einkabanka. Það er andstætt árferði til slíkra aðgerða. Ég held að við verðum að velja tíma til að breyta þeim með tilliti til efnahagsástandsins. Ég held að það sé ekki hagstætt eins og er og það er ekki gott að spá því hvenær það verður.``
    Það er alveg nauðsynlegt að hæstv. viðskrh. eyði óvissu í þessu máli því satt að segja væri það til þess að kóróna sérkennileg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli ef sú óvissa ætti að vera áfram.
    Tilefni þess að ég tek þetta hér upp er að sama dag birtist viðtal við hæstv. viðskrh., Jón Sigurðsson, í DV. Þar er hæstv. viðskrh. spurður að því hvort þessir atburðir mundu ekki hafa áhrif á það hvort ráðherrann legði fram frv. á þessu þingi um að breyta Landsbankanum og Búnaðarbankanum í hlutafélög. Hæstv. viðskrh. svaraði: ,,Nei. Það er ekkert tengt því máli. Það mál er í eðlilegum farvegi og verið er að undirbúa það. Ég tel þetta mál Landsbankans sýna að það er orðið æðierfitt að gíma við síbreytilegar aðstæður í bankaheiminum með ríkisbankakerfið. Á margan hátt er einfaldara að leysa þau vandamál sem koma upp ef bankarnir væru reknir í formi hlutafélags þótt ríkið eigi þá að öllu leyti og standi á bak við þá. Þetta er afar mikilvægur hlutur, bara til þess að menn nái vopnum sínum eins og einn bankastjóri orðaði það.``
    Sú staða er komin upp að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að nú sé ekki tími til að einkavæða bankana. Bankastjóri Seðlabankans hefur lýst því yfir að hann telji heldur ekki tíma til þess að gera það og hafi ekki hugmynd um það hvenær það verður. En hæstv. viðskrh. heldur sig enn þá við gamla listann um það að hann hafi ekki neitt breytt áformum sínum. Hann ætli sér að leggja fram á Alþingi á þessu þingi frv. um að breyta þeim sama banka, Landsbankanum, sem við erum nú að ríkisstyrkja, í hlutafélag og Búnaðarbankanum einnig og stefna ríkisstjórnarinnar um að selja síðan þessi hlutabréf sé óbreytt. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. viðskrh.:
    1. Hyggst hæstv. viðskrh. enn leggja fram á þessu þingi frv. um að breyta Landsbankanum og Búnaðarbankanum í hlutafélag? Ég óska eftir alveg skýru svari við því, já eða nei.
    2. Er hæstv. viðskrh. sammála yfirlýsingu forsrh. og yfirlýsingu Jóhannesar Nordals um að nú sé ekki tími til þess að hefjast handa við einkavæðingu bankanna og algerlega óvíst sé hvenær sá tími renni upp?
    3. Er hæstv. viðskrh. ekki sammála því sem fram hefur komið að ég hygg m.a. frá hæstv. fjmrh. að úr því sem komið er sé ekki hægt að reikna með neinum tekjum í ríkissjóð á þessu ári vegna sölu Búnaðarbanka eða Landsbanka?
    Ef hæstv. viðskrh. er einhver alvara með því að skapa stöðugleika gagnvart íslenska bankakerfinu þá er auðvitað alveg nauðsynlegt að hann svari þessum spurningum í dag áður en það frv. sem hér er til umfjöllunar verður að lögum. Þessar spurningar eru einfaldar, þær eru skýrar og hæstv. ráðherra getur svarað þeim í stuttu máli. Ég óska eindregið eftir því að hann gefi Alþingi Íslendinga svör við þessum spurningum.