Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:23:04 (6273)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í þessu máli ríkir engin óvissa. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að breyta rekstrarformi ríkisbankanna í hlutafélagsform. Til þess verður valinn réttur tími. Það mál, rekstrarform ríkisbankanna, er ekki á dagskrá þessa fundar. Ég vek athygli á því að enn síður er hér á dagskrá sala eignarhluta í slíkum hlutafélögum. Hér er því alls ekki verið að ræða um málið sem fyrir liggur. En ég get staðfest það skýrt og skorinort að það er ekki heppilegur tími til þess að selja eignarhluta ríkisins í bönkum um þessar mundir. Ef það er merking orðsins ,,einkavæðing``, þá er það alveg rétt. Nú er ekki heppilegur tími til þess.
    Hitt málið, breytt rekstrarform bankanna, er í eðlilegum farvegi. Að því máli er unnið og það mun líta dagsins ljós í fyllingu tímans þegar hentugur tími er til þess. Þetta verða mín svör við spurningum hv. 8. þm. Reykn. sem í reynd snerta ekki dagskrárefnið.